Lengra í land að SAk verði skilgreint sem háskólasjúkrahús

Lengra í land að SAk verði skilgreint sem háskólasjúkrahús

Ný heilbrigðisstefna til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi í síðustu viku en fyrsti kynningarfundur um stefnuna var haldinn á Akureyri sl. miðvikudag. Heilbrigðisstefnan markar það sem unnið verður að næstu árin og hver stefnumið heilbrigðisstofnanna verður.

Bjarni Jónasson, forstjóri SAk. Mynd: sak.is

Þetta kemur fram í pistli forstjóra Sjúkrahússins á Akureyri, Bjarna Jónassonar, sem birtur var á heimasíðu sjúkrahússins í dag. Þar vitnar hann í áætlun heilbrigðisstefnunnar, sem sett er fram til fimm ára, 2019-2023. Heilbrigðisstefnan setur ramma og stefnumið sem unnið verður eftir á næstu árum. Stefnan tekur m.a. á stjórnun, uppbyggingu og samhæfingu, hlutverkum og ábyrgðarsviði þjónustuveitenda, mönnun og menntun heilbrigðisstarfsfólks. Einnig er fjallað um hvernig hægt er að virkja notendur þjónustunnar og gera þeim betur kleift að axla ábyrgð á eigin heilsu, skilvirkni og nýtingu fjármagns, gæðum og öryggi þjónustunnar, vísindastarfi og framþróun. „Til að hrinda heilbrigðisstefnu til ársins 2030 í framkvæmd þurfum við að breyta hugsun okkar, verklagi og áherslum. Við verðum að innleiða nýjungar, breyta vinnubrögðum á vissum sviðum og jafnvel varpa fyrir róða einhverju af því sem við höfum hingað til talið bæði sjálfsagt og mikilvægt,” segir í stefnunni.

Halda áfram að efla vísindastarfið

Bjarni Jónasson er nokkuð bjartsýnn á heilbrigðisstefnuna en bendir á að ekki náist, á næstu fimm árum a.m.k., að SAk verði skilgreint sem háskólasjúkrahús.
„Stefnan okkar SAk fyrir samfélagið fellur vel að þessari heilbrigðisstefnu utan þess að óbreyttu verður lengra í land að markmiðið um að SAk verði skilgreint sem háskólasjúkrahús náist. En við höldum ótrauð áfram þeirri vinnu að efla okkar vísindastarf og annan undirbúning að því markmiði. Það eru verðug verkefni framundan á komandi árum í að fylgja eftir þeim góðu markmiðum sem heilbrigiðsstefnan setur fram. Til þess þarf fólk með vilja til að ná árangri í að bæta sífellt þá heilbrigðisþjónustu sem hér er veitt. Hér er þekking og reynsla, við  höfum náð miklum og eftirtektarverðum árangri á mörgum sviðum eins og ráðherra benti á við kynningu á nýrri heilbrigðisstefnu á Akureyri. Það er gott veganesti til áframhaldandi árangurs. Áfram svona!“ segir Bjarni í pistli sínum að lokum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó