Framsókn

Leitum víðar í öflugan mannauðMyndtexti: Gunnar Már Gunnarsson skipar 2. sæti á lista Framsóknar á Akureyri

Leitum víðar í öflugan mannauð

Gunnar Már Gunnarsson skrifar

Það er augljóst keppikefli fyrir háskólabæinn Akureyri að hér séu staðsett fleiri störf sem krefjast sérfræðiþekkingar. Við þurfum að kalla ríkið að borðinu og það sem fyrst. Þá er hins vegar gott að hafa í huga að hið opinbera hefur sjálft allan hag af því byggja upp starfsemi sína víðar en í Reykjavík. Um allt land má finna hæft og hæfileikaríkt fólk sem annaðhvort getur ekki eða vill ekki hafa búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Það má því með einföldum hætti stækka þann mannauð sem ríkið getur sótt í og um leið leiðrétta misskiptingu opinberra starfa sem nú er milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Öllum til heilla! 

Missum ekki af tækifærinu 

Ekki er þó nóg að flytja einfaldlega störf, því umhverfið sem við sköpum íslenskri stjórnsýslu þarf að vera gróskumikið og lifandi. Við eigum að vanda vel til verka og umfram allt skapa öflugar starfsstöðvar. Við þurfum að tryggja að opinberir starfsmenn á Akureyri séu, og finnist þeir vera, jafnir starfssystkinum sínum á höfuðborgarsvæðinu. Við tryggjum það með því að búa okkar fólki samkeppnishæfa og nútímalega starfsaðstöðu sem tekur mið af nýjustu tækni og vinnulagi samtímans. Slík uppbygging er reyndar nauðsynleg – þegar horft er til þess markmiðs að Ísland verði meðal allra fremstu þjóða heims í stafrænni þjónustu. Við fáum því seint betra tækifæri en einmitt nú til að ráðast í metnaðarfulla uppbyggingu utan höfuðborgarsvæðisins. Missum ekki af því!

Varanlegt framlag til byggðaþróunar á Íslandi

Aðstöðuleysi má ekki koma í veg fyrir að störf á vegum hins opinbera verði til víðar en á höfuðborgarsvæðinu og það er samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga að tryggja að svo verði ekki. Við í Framsókn viljum fjölga störfum án staðsetningar og við viljum berjast fyrir framsækinni uppbyggingu sem styður við skilvirkari og betri þjónustu við íbúa landsins. Gróskumikill stjórnsýsluklasi á Akureyri verður varanlegt framlag til byggðaþróunar á Íslandi. Ekki veitir af!

Höfundur er verkefnisstjóri í Brothættum byggðum og skipar 2. sæti á lista Framsóknar á Akureyri til bæjarstjórnarkosninga

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó