Háskólinn á Akureyri, Sjúkrahúsið á Akureyri og SleepImage leita nú að þáttakendum, konum á aldrinum 18 til 36 ára, fyrir nýja rannsókn um svefn kvenna.
Markmið nýrrar rannsóknar er að skoða hvernig svefn breytist yfir tíðahringinn hjá ungum konum og bera saman niðurstöðurnar við svefnvanda og líðan þátttakenda. Rannsóknin er einstök að því leyti að hún nýtir klínískar svefnmælingar til að meta svefngæði, öndunartruflanir í svefni og aðra þætti sem gætu verið breytilegir á milli stiga tíðahringsins.
„Fyrri rannsóknir hafa einungis byggt á hreyfimælum eða almennum mælitækjum á borð við snjallúr, en ekki með viðurkenndum klínískum svefnmælitækjum,“ segir Ingibjörg Magnúsdóttir, meistaranemi í heilbrigðisvísindum, sem sér um framkvæmd rannsóknarinnar. „Því er þessi rannsókn bæði tímabær og nauðsynleg til að bæta þekkingu á svefnvandamálum kvenna og þróa betri greiningar- og meðferðaraðferðir.“
Konur útilokaðar frá fyrri rannsóknum
„Konur hafa að miklu leyti verið útilokaðar frá svefnrannsóknum, oft með þeirri afsökun að erfitt sé að taka tillit til svefnbreytinga sem kunna að tengjast hormónasveiflum í tíðahringnum,“ útskýrir Nanna Ýr Arnardóttir, lektor í lífeðlisfræði við hjúkrunarfræðideild og ítrekar þannig mikilvægi rannsóknarinnar. „Það er almennt viðurkennt innan fræðanna sem snúa að svefni að börn eru ekki bara smáir fullorðnir og nú þarf fræðigreinin einnig að viðurkenna að konur eru ekki karlar“.
Þær útskýra að markmið rannsóknarinnar sé að kortleggja hvort svefn breytist á milli fjögurra stiga tíðahringsins. Einnig verður rannsakað hvort munur sé á svefni kvenna sem nota hormónagetnaðarvarnir og þeirra sem ekki nota þær.
„Kvartanir kvenna vegna svefnvandamála eru oft meðhöndlaðar á annan hátt en hjá körlum,“ segir Sólveig Magnúsdóttir, læknir hjá SleepImage. „Karlar eru mun líklegri til að fá tilvísun í rannsóknir vegna kæfisvefns, á meðan kvartanir kvenna eru oftar túlkaðar sem svefnleysi og meðhöndlaðar samkvæmt því,“ segir Sólveig og bendir á að rannsóknin sé mikilvæg til að skoða hvernig svefnvandamál birtast hjá konum og hvernig best sé að mæta þeim á réttan hátt. Með því að veita konum þann stuðning sem þær þurfa í greiningu og meðhöndlun svefnvandamála má vonast til að bæta heilsu þeirra til framtíðar.
Rannsóknin er samvinnuverkefni margra. Nanna Ýr Arnardóttir, lektor í lífeðlisfræði við hjúkrunarfræðideild, og Ingibjörg Magnúsdóttir, meistaranemi í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri, koma að rannsókninni fyrir hönd HA.
Frekari upplýsingar er hægt að finna hér og áhugasöm um þátttöku eru sérstaklega hvött til að kynna sér rannsóknina.