Leikur í lífsháska

Leikur í lífsháska

Svavar Alfreð Jónsson skrifar

Ég var fyrsta barnabarn ömmu Emelíu og afa Svavars og borðaði stundum hjá þeim í hádeginu á sunnudögum. Þau áttu heima á Eyrinni, í Norðurgötunni, fegurstu götu veraldar. Aldrei gleymi ég þessum sunnudagsmáltíðum, hvorki félagsskapnum né matnum sem amma eldaði. Kubbasteik í brúnni sósu var einstakt sælgæti og hrossagúllas með kartöflustöppu óviðjafnanlegt. Spegilgljáandi ávaxtagrautur með rjómablandi var algengur eftirmatur. Þótt hann væri dásemdin ein átti ég erfitt með að neyta hans vegna þess að mér bauð við sveskjusteinunum. Þessi steinafælni mín ágerðist og varð svo stæk að ég gat ekki hugsað mér lengur að borða góða grautinn hennar ömmu.

Þá reyndist Grenvíkingurinn, sjómaðurinn og Slipparinn með hrjúfu en hlýju hrammana, afi minn Svavar, eiga bráðsnjallt uppeldisráð uppi í erminni. Næst þegar ég afþakkaði grautinn sagði hann:

„Heyrðu, nafni, eigum við ekki að fara í keppni? Sá vinnur sem finnur fleiri steina í grautnum sínum!“

Eftir þetta þurfti ekki framar að eggja mig til átsins.

Afi Svavar var duglegur að leika við okkur krakkana. Þegar við sátum með honum til borðs átti hann til að lemja skyndilega stóra hnefanum sínum ofan í eldhúsborðið svo glamraði í borðbúnaðinum, sykurmolarnir hrukku upp úr karinu og amma kipptist við þar sem hún stóð við eldavélina og steikti lummur. Síðan hló hann hrossahlátri og við afabörnin reyndum að koma af stað sama djöfulgangi með okkar smáu og kraftlitlu höndum.

Stundum settist afi á móti mér, strauk flatan lófa minn og fór með heillanga þulu sem hófst á orðunum „Fagur er fiskur, flyðran í sjónum…“. Þegar lokaorðin „…á litla lófann detta“ heyrðust eftir dáleiðandi lestur var eins gott að vera nógu vakandi til að að kippa að sér hendinni undan þungu höggi gamla vélstjórans.

Afi gerði sér grein fyrir að leikurinn væri ekki bara dægrastytting eða eitthvað til að lyfta sér upp með. Þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum verkefnum, hvort sem um er að ræða að borða graut með sveskjusteinum eða eitthvað enn snúnara, getur verið ómetanlegt að kunna að bregða á leik.

Þessa dagana er ég að lesa frábæra bók eftir lækninn, sálfræðinginn og leikjafræðinginn Stuart Brown. Bók hans Play komst á metsölulista í Bandaríkjunum og er rituð á skrifstofu höfundarins í tréhúsi við heimili hans í Kaliforníu. Play fjallar um þá áráttu manna og annarra dýrategunda að bregða á leik. Brown heldur því fram að leikurinn sé nauðsynlegur ef heilinn eigi að þroskast á réttan hátt og styður það vísindalegum gögnum. Börn leika sér til að þroska sig og hæfileika sína. Fullorðið fólk sem ekki leikur sér hættir að vera skapandi, það fjarlægist sitt raunverulega sjálf og minnkar hæfni sína til að takast á við erfiðar og óvæntar aðstæður.

Leikurinn á við á öllum sviðum mannlífsins. Ástin án leiks getur hæglega orðið gamanlaus alvara og elskendunum tilfinningalega ofviða. „Couples who play together, stay together,“ er kenning Browns. 

Vinnan er ekki andstæða leiksins. Þvert á móti eigum við að nálgast verkefni okkar með hugarfari leikgleðinnar. Annars verður vinnan rútína, ill nauðsyn og við blasir stöðnun og kulnun. Leikurinn hjálpar okkur að skoða verkefnin úr fjarlægð og samstarf verður bæði nánara og skilvirkara ef leiknum er leyft að vera með í því. Þá spilar fólk í sama liðinu, í bókstaflegri merkingu.

Leikurinn getur verið okkur mjög mikilvægur í þeim raunum sem samfélagið er í þessa dagana með tvennum hætti.

Í fyrsta lagi getur verið að mikil hjálp að takast á við þau grafalvarlegu vandamál með hugarfari þeirra sem kunna að leika sér. Leikurinn krefst þess að reglur hans séu virtar en engu að síður hefur hver leikmaður svigrúm til að vera skapandi og frjór, finna nýjar leiðir og vera ófeiminn við að fara ótroðnar slóðir.

Í öðru lagi höfum við öll gott af því að bregða á leik og hugsa um eitthvað allt annað en covid19, hverfa inn í hliðarveruleika leiksins, þjálfa hinar leikandi víddir í okkur og skapandi svæði heilans og eiga gefandi og ögrandi samskipti við þau sem við okkur leika eða spila, sé þess kostur.

Í bókinni vitnar Brown í bandaríska rithöfundinn James A. Michener sem mér finnst komast að kjarnanum:

„The master in the art of living

makes little distinction between his work and his play,

his labor and his leisure,

his mind and his body,

his information and his recreation,

his love and his religion.

He hardly knows which is which.

He simply pursues his vision of excellence at whatever he does,

leaving others to decide whether he is working or playing.

To him, he’s always doing both.“

Pistillinn birtist upphaflega á bloggsíðu Svavars: https://www.svavaralfred.net/

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó