Leiksýningin Síldarstúlkur glæðir lífi í sögur kvenna úr síldarævintýrinu

Leiksýningin Síldarstúlkur glæðir lífi í sögur kvenna úr síldarævintýrinu


Síldarstúlkur er leiksýning á fjölum Rauðku á Siglufirði sem fjallar um minningar kvenna af síldarævintýrinu í bænum. Leikkonan Halldóra Guðjónsdóttir segir sögur síldarstúlkna af öllum stéttum sem sameinuðust á bryggjunni frá síðustu aldamótum þar til síldin hvarf af Íslandsmiðum á sjöunda áratugnum. Um tónlist sér harmonikkuleikarinn Margrét Arnardóttir og leikstjórn er í höndum Andreu Elínar Vilhjálmsdóttur. Síldarstúlkur er lífleg nýjung í þá flóru sem fjallar um síldarárin á Siglufirði.

Leikritið dregur fram í sviðsljósið upplifanir síldarstúlkna af kvennamenningu þessara ára, viðhorf þeirra til vinnu, fjölskyldulífs og félagslífs og hvernig tókst að uppfylla dagdrauma.

Handritið er að miklu leyti innblásið af sögum frá ömmum höfunda verksins. Amma Andreu hét Hólmfríður Steinþórsdóttir. Í september árið 1952 var hún ræst út í síld, en hún kallaði um hæl út um gluggann á Hlíðarveginum ,,ég get ekki komið, ég var að fæða!“ – þá nýbúin að fæða barn, móður Andreu, Elínu Sigríði Björnsdóttur. Aðeins fáeinum dögum eftir barnsburðinn var Hólmfríður mætt aftur á síldarplanið. 

Amma Halldóru hét Ásta Katrín Jónsdóttir.  Eftir erilsama daga í síldinni eina vertíðina leitaði hún til læknis vegna þreytu. Fékk hún þá uppáskrifuð lyf til að geta saltað á daginn og saumað á nóttunni. 

Leiksýningin Síldarstúlkur glæðir sögur sem þessar lífi. Í verkinu er vitnað í frásagnir viðmælenda Síldarsafnsins, dagbók Elku Björnsdóttur, munnmæli ættingja, þjóðsögur, innsendar greinar úr dagblöðum og flökkusögur frá síldarárunum. Verkefnið er styrkt af Launasjóði listamanna, Uppbyggingarsjóði Noðurlands Eystra, Fjallabyggð og Samfélags- og menningarsjóði Siglufjarðar .

Frumsýningin var þann 3. Apríl fyrir fullu húsi, við vorum að bæta við sýningu um páskana þann 16.04 kl. 17:00 Verkið tekur um 60.mínútur.

Miðasala er á tix.is https://tix.is/is/event/12995/sildarstulkur/

Aðstandendur

Leikari: Halldóra Guðjónsdóttir

Leikstjóri: Andrea Elín Vilhjálmsdóttir

Hljóðmynd, tónlist og flutningur: Margrét Arnardóttir

Höfundar: Andrea Elín Vilhjálmsdóttir og Halldóra Guðjónsdóttir

Sýningarstjóri: Sandra Rós Bryndísardóttir

Grafískur hönnuður: Dóra Haraldsdóttir

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó