Dagbjört Pálsdóttir, formaður fræðsluráðs Akureyrarbæjar, skrifar:
Hávær umræða fer nú fram í fjölmiðlum og á Fésbókarsíðum um þörf fyrir leikskólapláss á Akureyri. Í þeirri umræðu hefur verið skortur á réttum upplýsingum um stöðu mála þó svo að þeim hafi verið komið áleiðis og mikilvægt að halda þeim til haga.
Innritun fer fram í grunnskóla alla jafna á haustin og það sama á við um leikskólana nema í þeim tilvikum þegar börn flytja í bæinn en þá er lagt kapp á að bregðast við. Allar áætlanir sem gerðar eru miðast við þær upplýsingar sem fyrir liggja hverju sinni.
Á síðustu vikum hefur það gerst að umsóknir hafa borist fyrir um fjörtíu börn á leikskólaaldri sem eru að flytja í bæinn á næstu mánuðum. Þetta eru börn fædd á árunum 2012–2015. Fjölskyldur eru að flytja erlendis frá en einnig annars staðar að af landinu. Hingað til hefur staðan verið sú að fjöldi barna sem flytur í bæinn hefur verið álíka mikill og fjöldi barna sem flytur úr bænum. Auk þess hefur verið tilkynnt um flutning svipaðs fjölda grunnskólabarna til Akureyrar. Þetta var ekki hægt að sjá fyrir en er auðvitað gleðilegt. Þetta hefur haft áhrif á þær áætlanir sem fyrir liggja um þörf fyrir leikskólapláss. Elstu leikskólabörnin ganga fyrir í innritun vegna aldurs.
Þessa dagana er verið að fara í gegnum umsóknir og innritun til að kanna hvort mögulegt sé að innrita fleiri börn í leikskóla bæjarins. Mánaðar uppsagnarfrestur er í leikskólum svo búast má við að einhver pláss komi til með að losna í sumar.
Ekki eru allir foreldrar barna sem fædd eru í janúar 2016 búnir að svara hvort þeir komi til með að þiggja þau pláss sem þeim hefur þegar verið boðið. Þetta er vinna sem tekur smá tíma og því liggja ekki fyrir endanlegar niðurstöður.
Þegar ljóst var í hvað stefndi nú í vor, þá brugðust leikskólarnir strax við og þéttu hjá sér eins og mögulegt var. Það er því í flestöllum skólum meiri fjöldi barna heldur en þar var í vetur. Einnig var sett aukið fjármagn í síðustu fjárhagsáætlun til að bregðast við stöðunni með það að markmiði að taka inn börn fædd í janúar, febrúar og mars. Það sem hefur breytt stöðunni er þessi aukni og mikli aðflutningur barna í bæinn.
Skólaleikur
Að loknu sumarfríi í leikskólum nú í sumar verður nú í fyrsta sinn boðið upp á vistun elstu leikskólabarnanna í grunnskólum bæjarins og hefur verkefnið hlotið nafnið Skólaleikur. Þetta er ein af þeim aðgerðum sem farið var í til að freista þess að flýta innritun í leikskólana og ekki síður að auka tengingu milli skólastiga og styðja við aðlögun barnanna í grunnskólann.
Þjónusta dagforeldra
Síðastliðið haust voru starfandi 26 dagforeldrar. Þeir eru nú orðnir 30 og eins og staðan er nú verða þeir orðnir 31 eftir sumarið. Mikilvægt er að taka fram að dagforeldrakerfið er einkarekið en sveitarfélagið hefur eingöngu eftirlitsskyldu með starfsemi dagforeldra. Það er því ekki á færi sveitarfélagsins að tilkynna dagforeldrum hvaða leiðir þeir fara til að velja börn í hópinn sinn.
Flestir þeirra innrita eftir aldri umsókna hjá þeim en þeir huga væntanlega einnig að eigin starfsöryggi og vilja því gjarnan taka inn börn sem þeir treysta að komi til með að vera hjá þeim allan veturinn.
Vandi foreldra hefur hins vegar yfirleitt skapast um eða eftir áramót, því þá hafa dagforeldrar verið búnir að fylla í öll sín pláss, leikskólarnir allir fullir en foreldrar að koma úr fæðingarorlofi. Ýmsir hafa bent á að það þyrfti að innrita börn í leikskólana oftar en einu sinni á ári. Mismunandi skoðanir leikskólakennara eru á því og þyrfti að huga að innritun í grunnskóla með sama hætti ef breyta ætti slíkri innritun.
Að lokum
Akureyrarbær hefur gert ýmislegt til að bregðast við, m.a. með því að taka inn fleiri börn, setja meiri fjármuni í málaflokkinn og flýta flutningi barna inn í grunnskólann. Allt gert til að rýmka fyrir.
Ljóst er að árgangur barna fædd 2012 er stór. Næstu árgangar sem á eftir koma eru mun fámennari og því eru líkur á að aftur muni létta á leikskólakerfinu.
Allt er nú gert á fræðslusviði til að fá sem réttasta mynd af stöðu leikskólamála fyrir haustið 2017. Eins og rekið hefur verið hér að framan, eru enn nokkrir óljósir þættir. Þar til endanlega er ljóst hver raunveruleg staða er, þarf að sýna biðlund og taka þá ákvarðanir um annað í framhaldi af því.
Pistillinn birtist upprunalega á www.akureyri.is 21.apríl 2017.
UMMÆLI