Leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, Jón Páll Eyjólfsson, segir í viðtali við Rúv að ef reka eigi atvinnuleikhús með myndarskap þurfi að þrefalda ríkisframlagið til félagsins. Hann segir meðal annars að það verði að vera til nægt fjármagn svo hægt sé að fastráða leikara og bjóða upp á a.m.k., 4-5 sýningar á hverju leikári.
Opinbert framlag til reksturs og framleiðslu leikfélagsins hefur ekki breyst síðan 2007 og fær félagið 100 milljónir á ári til sviðslista. Um helmingur þess er framlag ríkisins í gegnum menningarsamninginn. Á þessum 10 árum hafa engar verðbætur verið reiknaðar inn í upphæðina sem gerir það að verkum að framlagið hafi í raun rýrnað um 60%, segir Jón Páll. Hann telur þá upphæð ekki geta staðið undir rekstri félagsins.
Jón Páll segir það nauðsynlegt að semja þurfi upp á nýtt við ríkisvaldið um fjárframlagið ef leikhúsið eigi að geta staðið undir sér og valdið hlutverki sínu sem atvinnuleikhús. Meðal annars til þess að geta boðið upp á framleiðslu á eigin sýningum, ekki einungis tekið við gestasýningum.
Hér má hlusta á viðtalið við Jón Pál í heild sinni.
UMMÆLI