Barna- og fjölskylduleikritið Dýrin í Hálsaskógi eftir Thorbjörn Egner verður uppfærsla vetrarins hjá Leikfélagi VMA. Leikstjóri verður Úlfhildur Örnólfsdóttir. Stefnt er að frumsýningu í Gryfjunni í VMA undir lok febrúar 2024. Þetta kemur fram á vef skólans.
„Starfið í Leikfélagi VMA fór síðar af stað í vetur en venjulega sem kom til af því að engin stjórn var í félaginu í upphafi skólaárs. En úr því rættist í október og nú er sjö manna stjórn í félaginu. Arna Þóra Ottósdóttir er formaður og með henni í stjórn eru Elsa Bjarney Viktorsdóttir, Ingólfur Óli Ingason, Hilma Dís Hilmarsdóttir, Kamilla Rún Sigurðardóttir, Kristjana Bella Kristinsdóttir og Ólöf Alda Valdemarsdóttir,“ segir í tilkynningu á vef VMA.
Arna Þóra formaður Leikfélags VMA segir að prufur verði fyrir uppfærsluna á Dýrunum í Hálsaskógi fimmtudaginn 23. nóvember og í kjölfarið verði valið í hlutverk í sýningunni. Í kjölfarið sé stefnt að því að hefja mjög fljótlega samlestur, ætlunin sé að láta hendur standa fram úr ermum og vinna uppfærsluna hratt og örugglega. Arna segir að um tuttugu hlutverk séu í sýningunni og til þess að túlka þau þurfi að lágmarki fjórtán leikara. Hún hvetur alla nemendur sem áhuga hafa á að leika í sýningunni og taka á annan hátt þátt í uppfærslunni að mæta á prufurnar á fimmtudag í næstu viku og/eða hafa samband með því að senda tölvupóst á leikfelag@thorduna.is.
Arna Þóra lauk stúdentsprófi af sviðslistabraut MA sl. vor og tók ríkan þátt í uppfærslum Leikfélags MA. Var í búningahönnuninni í uppfærslunni 2022 og fyrr á þessu ári stóð hún á leiksviðinu í Hofi í söngleiknum Footloose. Hún segist hafa mikinn áhuga á að leggja sitt af mörkum í þágu leiklistarinnar í VMA og því hafi hún gefið kost á sér til formennsku í leikfélaginu. Komandi vikur og mánuðir leggist vel í hana. Ætlunin sé að vinna hratt og örugglega eftir að valið hefur verið í hlutverk.
Ástæða þess að Arna Þóra stundar nám í VMA í vetur, eftir að hafa lokið stúdentsprófi frá MA, er sú að hún stefnir á að hefja nám í jarðfræði við Háskóla Íslands næsta haust. Til þess að gera það fannst henni nauðsynlegt að styrkja sig í raungreinum og því er hún í áföngum í VMA í stærðfræði, eðlisfræði og jarðfræði. Arna segir að eldfjallafræðin heilli hana sérstaklega og skal kannski engan undra því hún kemur úr Mývatnssveit þar sem jarðfræðin og þar með eldfjallafræðin er við nánast hvert fótmál.
UMMÆLI