Um þessar mundir fagnar leikfélag Dalvíkurbyggðar 80 ára afmæli og nóg er um að vera hjá félaginu. Þessa dagana standa yfir æfingar á verkinu „Sex í sama rúmi“ í leikstjórn Sögu Geirdal Jónsdóttur. Verkið verður frumsýnt 23. febrúar.
„Ljóst er að þetta ár skipar stóran sess hjá félaginu. Að halda úti félagastarfi í 80 ár í litlu samfélagi eins og Dalvíkurbyggð er, finnst okkur vera ákveðið afrek. Eins og gengur og gerist í svona félagsskap koma hæðir og lægðir, en ljóst að félagið nú er fullt eldmóðs og hlakkar til 80 ára afmælisársins. Í haust munum við fagna afmælinu sérstaklega með ljósmyndasýningu í Bergi,“ segir Jóhanna Sólveig Hallgrímsdóttir, formaður leikfélagsins.
Í verkinu „Sex í sama rúmi“ eru 9 leikarar, en alls koma tæplega 40 manns að verkinu með einum eða öðrum hætti. Verkið fjallar um þau Philip og Joanna Markham sem eru hamingjusamlega gift. Philip er útgefandi barnabóka og vinnur á neðri hæð íbúðar þeirra hjóna, ásamt félaga sínum Henry Lodge sem er kvæntur en kviklyndur mjög í hjónabandinu. Henry hefur talið Philip á að lána sér íbúðina þetta kvöld til að eiga ástarfund með nýjasta viðhaldinu. Linda, eiginkona Henry veit að hann er henni ótrúr og hún biður Joönnu um að lána sér sömu íbúð til að hitta þar mann sem hún ætlar að sofa hjá til að hefna sín á Henry. Alistair Spenlow er í ástarsambandi við au-pair stúlku Markham hjónanna og þau hafa líka skipulagt ástarfund á staðnum þetta kvöld. Hvað gæti farið úrskeiðis?
Höfundar verksins „sex í sama rúmi“, eða „Move over Mrs. Markman“ eins og það heitir á ensku eru þeir Ray Cooney, fæddur 30. maí 1932 og John chapman, fæddur 27. maí 1927. Þeir þykja í hópi bestu gamanleikjahöfunda samtímans. Þeir hafa skrifað fjölmarga gamanleiki, bæði saman og í sitthvoru lagi en flestir hafa það sammerkt að hafa náð ótrúlegum vinsældum.
„Það er magnað að finna kraftinn í miðasölunni, en hún er framan vonum. Við finnum að fólk langar að koma í leikhús og hlæja, enda kannski gott fyrir sálina að fara í leikhús og tína stað og stund í því árferði sem er í samfélaginu núna,“ segir Jóhanna Sólveig.
Hér má sjá sýningartíma sem eru í sölu:
23.02.24 – Föstudagur kl: 20:00 – Frumsýning UPPSELT
25.02.24 – Sunnudagur kl: 20:00
01.03.24 – Föstudagur kl: 20:00
03.03.24 – Sunnudagur kl: 20:00 – Örfá sæti laus
09.03.24 – Laugardagur kl: 20:00
15.03.24 – Föstudagur kl: 20:00
16.03.24 – Laugardagur kl: 20:00 – UPPSELT
22.03.24 – Föstudagur kl: 20:00
23.03.24 – Laugardagur kl: 20:00 – Örfá sæti laus
24.03.24 – Sunnudagur kl 20:00
Miðapantanir eru inná heimasíðu félagsins ungodalvik.is. Auk þess er hægt að panta miða í síma 868-9706, en hópapantanir fyrir 10 manns eða fleiri þurfa að berast símleiðis.
Leikfélag Dalvíkurbyggðar bíður uppá þá nýbreytni í samstarfi við kaffihús Gísla, Eirík og Helga að hægt er að panta fiskisúpu, salat og brauð eða leikhúsplatta fyrir sýningu. Er það gert samhliða því þegar pantaðir eru miðar á leikverkið.
UMMÆLI