NTC

Leiga hækkar á Akureyri um áramótin

Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt að hækka leigu félagslegra íbúða í eigu sveitarfélagsins og kemur hækkunin til með að taka gildi um ármótin. Formaður bæjarráðs segir að stefnt sé að því að stofnstyrkja fleiri íbúðir í bænum til að létta þrýstingnum af félagslega kerfinu.

Það vantar tekjur inn í félagslega leiguíbúðakerfið til að það standi undir sér og velferarráð lagði það til í ágúst að leiga yrði hækkuð umfram vísitölu til þess að draga úr mun á leigu almennra og félagslegra íbúða. Á síðasta bæjarstjórnarfundi var tillagan samþykkt samhljóða.
Leiga á tveggja herbergja íbúðum hækkar um 3,8% en mesta aukningin verður á leigu þriggja herbergja íbúða, þar sem leigan hækkar um 10%. Annað húsnæði hækkar um 3% meðan húsaleiga í Hrísey og Grímsey helst óbreytt.
Samhliða eru gerðar breytingar á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning sem milda áhrif hækkunarinnar upp að vissu marki.

Rúv greinir frá því að formaður bæjarráðs, Guðmundur Baldvin Guðmundsson hafi sagt á fundinum að aldrei væri gott að hækka leigu á félagslegum íbúðum. Hins vegar sé hækkunin hófleg og verðið enn mun lægra en á sambærilegum íbúðum í Reykjavík. Þá benti hann á að hækkunin komi mest við þá sem leigja þriggja herbergja íbúðir sem hækka að jafnaði um tæpar 10 þúsund krónur á mánuði. Fæstir þeirra eigi rétt á hærri húsnæðisbótum til að vega upp á móti hækkuninni.

Stofnstyrkja fleiri íbúðir
Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði nauðsynlegt að hækka leigu til að standa straum af endurbótum. Jafnframt vakti hann athygli á því að mögulega væru of margir að leigja hjá bænum sem ættu frekar að vera á almennum markaði. Þá þurfi að skoða samsetningu íbúða til ráðstöfunar og gefa fólki kost á því að minnka við sig, en skortur á tveggja herbergja íbúðum komi oft í veg fyrir það.
Guðmundur Baldvin tók undir þetta og ítrekaði að félagslegar íbúðir ættu að vera tímabundið úrræði. Næsta skref hjá bænum sé að stofnstyrkja fleiri íbúðir í bænum og létta þannig þrýstingnum af félagslega kerfinu.

Sambíó

UMMÆLI