Leiðsögn um verk Ingibjargar Sigurjónsdóttur og Ragnars Kjartanssonar í Sigurhæðum á Akureyri

Leiðsögn um verk Ingibjargar Sigurjónsdóttur og Ragnars Kjartanssonar í Sigurhæðum á Akureyri

Myndlistarmennirnir Ingibjörg Sigurjónsdóttir og Ragnar Kjartansson hafa unnið fjölbreytileg verk fyrir Menningarhús í Sigurhæðum í ár. Verkin eru innan um eða í innsetningum sem miðla menningararfi staðarins og sögu hússins. Eins og kunnugt er létu hjónin Matthías Jochumsson og Guðrún Runólfsdóttir reisa Sigurhæðir árið 1903 og það var bæði heimili þeirra og vinnustaður þar sem þau unnu að listsköpun sinni.
Laugardaginn komandi, 13. júlí klukkan 13, verður Hlynur Hallsson myndlistarmaður með sérstaka myndlistar leiðsögn, þar sem farið verður um Sigurhæðir með áherslu á verk Ingibjargar og Ragnars. Skoðað verður hvernig þau kallast á við menningararfinn og koma inn með ferska vinkla á efnivið staðarins, 150 ár frá því að Matthías samdi sálminn sem síðar varð þjóðsöngur okkar og tengsl verka Ingibjargar og Ragnars við hann. Kristín Þóra Kjartansdóttir, staðarhaldari í Sigurhæðum kemur einnig með stutt og áhugaverð söguleg innskot í leiðsögnina.
Forvitnileg, ljúf, djúp og fyndin hálftíma samræða og gott tækifæri til að koma í þetta dásamlega hús og kynnast einnig framúrskarandi myndlist.
Leiðsögnin fer fram á íslensku, öll eru velkomin og það er enginn aðgangseyrir.

Sambíó

UMMÆLI