Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, sendi í dag frá sér leiðréttingu á vef sjúkrahússins þar sem kemur fram að sjúklingur sem lést á sjúkrahúsinu um síðustu helgi hafi ekki látist af völdum Covid-19.
Í tilkynningu frá SAk í vikunni kom fram að fyrsta andlátið vegna faraldursins á sjúkrahúsinu hefði orðið um síðustu helgi. Þar kom fram að einstaklingur hefði látist vegna Covid-19.
„Í ljósi skilgreininga á andláti af völdum Covid-19 sem var gefin út af embætti landlæknis 22. febrúar og yfirferð sjúkraskrárgagna í framhaldi af því þá er ekki talið að Covid-19 hafi átt afgerandi þátt í andláti þessa einstaklings og það eigi því ekki að skilgreina sem andlát vegna faraldursins. Er þetta hér með leiðrétt og beðist velvirðingar á þessu ásamt því að aðstandendum er vottuð samúð,“ skrifar Sigurður á vef SAk.
UMMÆLI