NTC

Leggur til að þingheimur lögfesti lágmarkslaun á Íslandi strax í 340.000 krónum

Vilhjálmur Birgisson

Vilhjálmur Birgisson

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, birti í dag pistil á Facebook síðu sinni þar sem hann fjallar um launahækkun þingmanna.

Hann óskar þar þingmönnum til hamingju með launahækkunina frá Kjararáði en talar síðan um að hann vilji að það sama gildi yfir alla en ekki bara suma. Hann skorar á þingmenn að hækka lágmarkslaun.

Stöðuuppfærsluna má sjá í heild sinni hér að neðan:

Ég vil byrja á því að óska þingmönnum innilega til hamingju með 44% launahækkunina frá Kjararáði, enda gleðst ég ætíð þegar launafólk hækkar í launum. Ég vil hins vegar að það gildi fyrir alla, en ekki bara fyrir suma.

Á þessari mynd sést launaþróun þingmanna og verkafólks á lægstu töxtum á Íslandi síðustu 20 ár, en þar kemur fram að þingfararkaup hefur hækkað um 905 þúsund krónur á mánuði á þessu tímabili eða sem nemur 464%. En á sama tímabili hefur lægsti taxti verkafólks hækkað einungis um 184 þúsund krónur á mánuði, eða sem nemur 306%.

Það er alveg magnað þegar því er ætíð haldið fram að launahækkanir til þeirra tekjulægstu hafi alltaf hækkað mest. Þetta er svo mikið bull að það nær ekki einu einasta tali eins og þessi mynd sýnir bersýnilega, enda hefur þingfararkaupið hækkað um 721 þúsund krónum meira en lægsti taxti.

Hins vegar er rétt að geta þess að þingfarakaupið eitt og sér segir ekki nema hálfa söguna um heildarlaun þingmanna.

Eins og áður sagði gleðst ég ætíð þegar fólk hækkar í launum, en ég bið þingmenn sem hafa verið að tala um mikilvægi þess að koma á friði á vinnumarkaði og að taka þurfi upp nýtt vinnumarkaðsmódel þar sem hóflegar launahækkanir verði ætíð hafðar að leiðarljósi að nefna ekki slíkt í eyru verkafólks. Enda er slíkur málflutningur viðbjóðsleg hræsni í ljósi þeirra bláköldu staðreynda sem fram koma á þessari mynd.

Það væri reyndar fróðlegt að fá að vita hvað fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sem nú situr á þingi segir núna, þegar það liggur fyrir að lægstu laun á Íslandi hafa hækkað um langtum minna en þingfararkaupið. Sérstaklega í ljósi þeirra ummæla sem hann lét falla við gerð síðustu kjarasamninga þegar hann sagði að tími sértækra hækkana lægstu launa væri liðinn vegna þess að hækkun lægstu launa ylli höfrungahlaupi.

Það er ekkert annað hægt en að þakka þingheimi og kjararáði kærlega fyrir að sýna íslensku verkafólki að nægt svigrúm er til að lagfæra laun á íslenskum vinnumarkaði með þeim hætti að þau dugi til lágmarksframfærslu. Ef lægsti taxti á íslenskum vinnumarkaði árið 1996 hefði fengið sömu hækkun og þingfararkaupið á síðustu 20 árum þá væri hann í dag um 340.000 krónur en ekki 244.000 kr. Kannski þingheimur lögfesti lágmarkslaun á Íslandi strax í 340.000 krónum og komi þannig íslensku verkafólki til hjálpar. Góður bragur yrði á slíku!

a-status

Sambíó

UMMÆLI