Leggja til íbúakosningu um aðalskipulagstillögu á Oddeyri

Leggja til íbúakosningu um aðalskipulagstillögu á Oddeyri

Yfir 2.300 einstaklingar hafa nú skráð sig í Facebook-hópinn „Enga háhýsabyggð á Oddeyrinni á Akureyri“ til að mótmæla ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar sem að hefur lagt til að auglýstar verði breytingar á aðalskipulagi Akureyrar sem nær yfir nýtt íbúðasvæði á Oddeyri.

Á síðasta ári voru kynntar hugmyndir fyrir byggingu á allt að 11 hæða húsum á svæðinu en þær hugmyndir voru mikið gagnrýndar. Nú hefur skipulagsráð komið til móts við athugasemdir um hæð bygginga með því að takmarka hæð þeirra við 25 metra yfir sjávarmáli sem þýðir að hámarki 7 hæða hús.
Mótmælin hafa verið áberandi og ljóst að Akureyringar eru ekki sammála um málefnið og finnst byggingarnar enn of háar fyrir svæðið.

Þessi umdeilda skipulagstillaga á Oddeyri var til umræðu á fundi bæjarstjórnar Akureyrar á miðvikudag. Þar lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram bókun um að sú aðalskipulagsbreyting sem væri til umræðu færi í íbúakosningu áður en hún yrði endanlega afgreidd.

Ekki er búið að gefa út hvort að af því verði en ljóst er að margir fylgjast með og bíða svara bæjarstjórnar með þetta málefni.
Bæjarstjórn samþykkti hins vegar að auglýsa tillögu að breytingu og eftir það fer málið til Skipulagsstofnunar til athugunar og að því loknu verður tillagan auglýst og kynnt í að lágmarki sex vikur áður en skipulagsráð og bæjarstjórn taka hana aftur til umfjöllunar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó