Lausagaganga katta verður bönnuð á Akureyri frá og með 1. janúar 2025. Meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar samþykkti tillögu þess efnis í gær. Langar umræður voru um tillöguna á bæjarstjórnarfundi í gær. Þetta kemur fram á vef Akureyri.net.
Töluverður ágreiningur hefur verið um málið en enginn meiri- eða minnihluti er starfandi í sveitarfélaginu heldur starfa allir flokkar saman í bæjarstjórn.
Eva Hrund Einarsdóttir bæjarfulltrúi D-lista lagði fram tillögu þess efnis að samþykktir um kattahald yrðu endurskoðaðar. Í kjölfarið fóru af stað miklar umræður um málið innan bæjarstjórnar og kom í ljós meirihluti bæjarfulltrúa vildi ganga lengra en tillaga Evu Hrundar fól í sér.
Eva Hrund lagði fram þá fram nýja tillögu sem samþykkt var af sjö bæjarfulltrúum. Fjórir voru á móti og lögðu fram bókun.
Tillaga Evu Hrundar, sem samþykkt var, hljóðar svo:
- Bæjarstjórn samþykkir að endurskoða samþykktir um kattahald í Akureyrarkaupstað. Verður þá með nýjum tillögum lausaganga katta ekki heimil en sett svokallað sólarlagsákvæði inn sem er þrjú ár. Lausaganga katta verður þá ekki heimil frá ársbyrjun 2025. Þá verði einnig settur umtalsverður meiri kraftur að í að framfylgja þeim samþykktum með sérstakri áherslu á ábyrgð eigenda, skráningarskyldu og fræðslu.
Þau Hilda Jana Gísladóttir, Sóley Björk Stefánsdóttir, Heimir Haraldsson og Halla Björk Reynisdóttir greiddu atkvæð gegn tillögu Evu Hrundar. Hilda Jana lagði fram bókun fyrir sína hönd, Sóleyjar og Heimis.
Bókunin sem Hilda Jana lagði fram er svona:
- Við hörmum þá niðurstöðu bæjarstjórnar að banna alfarið frjálsa útivist hjá kisum. Bæjarfélagið hefur lítið sem ekkert gert til að framfylgja þeim samþykktum sem nú þegar eru í gildi né látið á það reyna að breyta samþykktum í þá veru að sem flestir geti vel við unað. Hægt hefði verið að stíga það skref að heimila ekki útivistina að næturlagi og yfir varptíma fugla. Mikilvægara hefði verið að leita lausna en að grípa til banns. Fyrst grípa á hins vegar til banns hefði verið eðlilegra að setja sólarlagsákvæði, þannig að þær kisur sem nú þegar eru útikisur fái að vera það út sinn líftíma.