Lausa skrúfan, vitundarvakningar- og fjáröflunarverkefni Grófarinnar Geðræktar, leitar bakhjarla og styrktaraðila. Tekið er fram að þau sem hægt er að nýta styrki yfir 10.000 krónur á ári til niðurgreiðslu á skattstofni skv. lögum um almannaheillafélög.
Lausa skrúfan verður á Glerártorgi helgina 15.–16. febrúar á milli 12 og 17, og býður öllum sem vilja að koma og ræða um geðheilbrigði, kynna sér verkefnið og veita stuðning. Þátttakendur úr Grófinni Geðrækt verða á staðnum til að segja frá mikilvægi geðræktar og safna framlögum til að halda starfsemi Grófarinnar gangandi, sem nú stendur frammi fyrir fjórfalt hærri húsnæðiskostnaði en áður. Einnig mun Svavar Knútur tónlistarmaður koma og syngja lög og segja sögur fyrir gesti og gangandi klukkan 14 á laugardeginum,
Febrúar hefur verið valinn sem mánuður Lausu skrúfunnar – kaldur og dimmur tími þar sem geðheilsa okkar allra skiptir miklu máli. Hugmyndasmiður verkefnisins, Sigurður Gísli, á sjálfur persónulega sögu tengda febrúar og leggur áherslu á mikilvægi þess að styðja við andlega heilsu þegar veturinn er hvað þyngstur.
Lausa skrúfan var fyrst kynnt síðasta haust og vakti mikla athygli. Fólk var opið fyrir umræðunni og deildi eigin reynslu af geðheilbrigði. Við viljum halda þessu samtali gangandi allan ársins hring og vonum að sem flestir kíkji á okkur á Glerártorgi um helgina til að styðja málefnið og taka þátt í umræðunni!
Hvað er Grófin Geðrækt?
Grófin geðrækt er gjaldfrjálst úrræði fyrir einstaklinga 18 ára og eldri á öllum stigum bataferilsins sem vilja bæta heilsuna með geðrækt og batavinnu gegnum hópastarf á jafningja-grundvelli. Markmið Grófar-innar er meðal annars að skapa tækifæri fyrir þau sem glíma við andlega erfiðleika til að vinna í sínum bata á eigin forsendum og á eigin ábyrgð, sem og að skapa vettvang fyrir öll þau sem vilja vinna að geðrækt á jafningjagrunni, hvort sem þeir eru notendur geðheilbrigðisþjónustunnar, fagaðilar, aðstandendur eða einfaldlega áhugafólk um fram-farir í geðheilbrigðismálum.
Hægt er að lesa meira um Lausu skrúfuna inni á www.lausaskrufan.is