NTC

Laun hjúkrunarfræðinga á Akureyri lægri

Laun hjúkrunarfræðinga við Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) eru lægri en laun hjúkrunarfræðinga við Landspítala í Reykjavík.
Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá SAk segir SAk þurfa á annað hundrað milljónir króna til að laga launabilið milli stofnananna.

„Laun okkar hjúkrunarfræðinga eru um sex til átta prósentum lægri en á þeim stofnunum sem við erum í samkeppni við. Skýringin er sú að við höfum brugðist við kalli um að bæta við aukahöndum vegna álags og því farið þá leið að ráða fleiri og ekki náð að fylgja launaþróuninni,“ segir Hildigunnur. „Því lögðum við ríka áherslu á það í samræðum við fjárlaganefndina að ef við eigum að eiga í samkeppni um hjúkrunarfræðinga þurfum við að laga þetta bil.“

Um átta hundruð til þúsund menntaðir hjúkrunarfræðingar starfa utan greinarinnar. „Það er mín skoðun að við þurfum að hækka laun til að draga þessa hjúkrunarfræðinga að,“ segir Hildigunnur. „Með því að fá meira fjármagn inn getum við lokkað inn til okkar unga hjúkrunarfræðinga því launin eru það fyrsta sem þarf að laga.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó