NTC

Laugardagsrúnturinn: Vestur fyrir heiðiLjósmynd: Rúnar Freyr Júlíusson

Laugardagsrúnturinn: Vestur fyrir heiði

Við Akureyringar erum mjög heppin að búa á ótrúlegu svæði. Hér eru náttúrufegurð, mannlíf og einstakar upplifanir að finna allt í kring. Flest erum við þó ekki nógu dugleg að nýta okkur þessar perlur í nærumhverfinu. 

Laugardagsrúnturinn er vikulegur pistill hér á Kaffinu sem ætlað er að veita bæði einstaklingum og fjölskyldufólki innblástur fyrir stuttar dagsferðir í nágrenni við Akureyri. Á hverjum föstudegi birtist hér grein með ferðalýsingu sem tekur mið af opnunartímum, veðurfari og öðrum þáttum fyrir komandi laugardag. Þannig getur hver lesandi fylgt þeirri ferðalýsingu með sínum vinum og fjölskyldu á laugardeginum, eða valið og hafnað úr henni eftir því hvað vekur áhuga hvers og eins.

Laugardagsrúnturinn þessa vikuna ber nafnið „Vestur fyrir heiði,“ þar sem við ætlum að hætta okkur yfir Öxnadalsheiði og njóta dagsins í Skagafirði. Hverjum laugardagsrúnti er ætlað að vera stutt dagsferð, sem að sjálfsögðu dugar engan veginn til þess að njóta allra þeirra undra sem er að finna í Skagafirði. Grettislaug, Grafarkirkja, Sauðárkrókur, Hólar og miklu fleiri frábærir staðir munu einfaldlega þurfa að koma fram í laugardagsrúntum framtíðarinnar.

Hvað skal hafa með: Sundföt, nesti, útifatnaður eftir veðri, ágætir gönguskór.

Áætlaður ferðatími: 7 til 8 klukkutímar.

Erfiðleikastig: Engir malarvegir, léttar göngur. Góður fyrir flesta hrausta lesendur.

Haldið af stað

Leið okkar þessa vikuna liggur til vesturs, yfir Öxnadalsheiði. Á heiðinni getur vissulega verið mjög hált að vetri til, en veðurspáin þessa vikuna lítur mjög vel út hvað vind varðar. Þannig ætti ekki að vera neitt vesen að keyra örugglega yfir heiðina svo lengi sem keyrt er samkvæmt aðstæðum. Það er samt ekki slæm hugmynd að skoða vel veðurspánna áður en lagt er af stað. Ef veður leyfir stingum við upp á því að leggja af stað um 10 leytið. Þá getum við byrjað daginn snemma án þess að keyra í myrkri. Við mælum með því að borða morgunmat heima og taka svo með nesti til þess að hafa í hádegismat.

Öxnadalur sjálfur er afskaplega fallegt svæði, enda veitti umhverfið þar Jónasi Hallgrímssyni, helsta ljóðskáldi okkar íslendinga, mikinn innblástur. Búið er að útbúa ágætis bílastæði, um það bil 15 mínútna keyrslu frá Þelamörk, þar sem hægt er að leggja og fá gott útsýni af Hraundranga. Bílastæðið er á hægri hönd og er merkt inn á Google Maps, einfladlega sem „Öxnadalur.“ Við mælum með að staldra hér við og dást að þessum ótrúlega tindi.

Hofsós

Eftir að við komum yfir heiðina beygjum við inn afleggjarann að Hofsósi. Keyrslan hingað frá Akureyri tekur okkur um það bil klukkutíma og korter. Á Hofsósi er margt að sjá og gera, en á þessum laugardagsrúnti höfum við tvö megin markmið: Við ætlum að baða okkur og við ætlum að njóta náttúrufegurðar.

Þess vegna byrjum við á því að leggja bílnum í bílastæðinu hjá sundlauginni. Þaðan tökum við stuttan göngutúr eftir litlum stíg niður að Staðarbjargavík. Hér er að finna gullfallegt stuðlaberg, sem ekki er slakara en stuðlabergsmyndanir á frægustu ferðamannastöðunum sunnan við heiði líkt og Reynisfjöru.

Staðarbjargarvík. Ljósmynd: Markaðsstofa Norðurlands

Næst ætlum við í sund. Sundlaugin á Hofsósi er víðfræg fyrir ótrúlegt útsýni yfir Skagafjörðinn og sérstaklega af Drangey. Hafa ber í huga að sundlaugin á Hofsósi lokar klukkan 16:00 á laugardögum og fórum við þess vegna heldur snemma af stað í þennan laugardagsrúnt.

Sundlaugin á Hofsósi býður upp á eitt besta útsýni landsins. Ljósmynd: Markaðsstofa Norðurlands

Ef við byrjum á því að taka göngu niður að Staðarbjargarvík, förum næst í sund og rúntum svo aðeins um Hofsós og virðum þetta fallega þorp fyrir okkur, þá getum við reiknað með að eyða hér þremur klukkutímum og lagt af stað að næsta áfangarstað klukkan rúmlega tvö.

Reykjafoss

Nú er leiðinni haldið eilítið vestar, yfir að Reykjafossi. Það tekur okkur um það bil 40 mínútur að komast að Reykjafossi frá Hofsósi, en Reykjafoss er að finna rétt sunnan við Varmahlíð og komumst við að bílastæðinu með því að fylgja vegi 752. Þannig er klukkan að ganga þrjú þegar við komum hér að. Næst tekur við smávegis ganga upp að fossinum. Á þessum árstíma má alltaf reikna með talsverðri hálku á þessari göngu, svo hægt er að reikna með að gangan taki allt að 10 mínútur hvora leið ef svellið er sérstaklega sleipt. Það er þó vel þess virði að leggja þessa göngu á sig, því Reykjafoss er einn fallegasti foss á Norðurlandi, sérstaklega í klakaböndum veturs konungs. Við getum reiknað með hálftíma til 40 mínútna stoppi hér. Ef við ákveðum að dýfa okkur í Fosslaug, sem er örstutt ganga frá fossinum, þá getum við reiknað með lengri tíma og jafnvel horft á sólsetrið úr lauginni.

Reykjafoss að vetri til. Ljósmynd: Rúnar Freyr Júlíusson

Víðimýrarkirkja

Loks keyrum við ekki nema 10 mínútúr til þess að virða fyrir okkur Víðimýrarkirkju. Á laugardagsrúntinum í þarsíðustu viku var Saurbæjarkirkja eitt af stoppunum okkar og var þá minnst á að hún væri ein af sex upprunalegum torfkirkjum sem eftir standa á Íslandi. Víðimýrarkirkja er önnur þeirra og ekki minna glæsileg. Raunar eru þrjár af sex upprunalegum torfkirkjum landsins ekki nema stuttan akstur frá Akureyri, en sú þriðja, Grafarkirkja, mun án efa koma fram á öðrum laugardagsrúnti í framtíðinni. Hún er þó örstutt frá Hofsósi svo ekki væri flókið að bæta henni á ferðaplanið ef lesendur hafa sérstakan áhuga. Þennan laugardaginn virðum við þó fyrir okkur Víðimýrarkirkju. Kirkjan er að staðaldri læst að vetri til, en fyrst við erum á þessum slóðum er vel þess virði að skoða hana að utan, enda eru torfkirkjur bæði fallegur og alíslenskur byggingarstíll.

Ljósmynd: Markaðsstofa Norðurlands

Loks mun aksturinn aftur á Akureyri taka okkur um það bil klukkutíma og korter. Ekki væri ósniðugt að staldra við á Varmahlíð og grípa sér kaffibolla eða smá snarl fyrir heimleiðina. Hver og einn mun taka rúntinn á sínum eigin hraða en samkvæmt áætlun okkar hér á Kaffinu erum við að snúa heim á milli klukkan fimm og sex. Tilvalinn tími til að fara að elda kvöldmat, nú eða panta pizzuna, eftir því hversu þreytt við erum eftir langann en skemmtilegan dag í Skagafirðinum.

Þannig hljóðar laugardagsrúnturinn þessa vikuna. Eins og áður segir er hver laugardagsrúntur einungis ætlaður til að veita okkur innblástur til að skoða betur nærumhverfið. Ekkert við ferðaplanið er heilagt. Kannski veist þú um skemmtileg aukastopp á leiðinni. Kannski nennir þú ekki öllum rúntinum en vilt endilega skella þér á bara eitt af stoppunum. Kannski viltu byrja fyrr eða seinna eða gera hann öfugt. Það eina sem við hjá Kaffinu vonumst til er að laugardagsrúnturinn hafi hvatt þig til þess að skoða nærumhverfið betur og vonandi gátum við gefið þér einhverjar hugmyndir.

Sambíó

UMMÆLI