NTC

Laugardagsrúnturinn: Norðurljós og stjörnurLjósmynd: RFJ

Laugardagsrúnturinn: Norðurljós og stjörnur

Við Akureyringar erum mjög heppin að búa á ótrúlegu svæði. Hér eru náttúrufegurð, mannlíf og einstakar upplifanir að finna allt í kring. Flest erum við þó ekki nógu dugleg að nýta okkur þessar perlur í nærumhverfinu. 

Laugardagsrúnturinn er reglulegur pistill hér á Kaffinu sem ætlað er að veita bæði einstaklingum og fjölskyldufólki innblástur fyrir stuttar dagsferðir í nágrenni við Akureyri. Á hverjum föstudegi birtist hér grein með ferðalýsingu sem tekur mið af opnunartímum, veðurfari og öðrum þáttum fyrir komandi laugardag. Þannig getur hver lesandi fylgt þeirri ferðalýsingu með sínum vinum og fjölskyldu á laugardeginum, eða valið og hafnað úr henni eftir því hvað vekur áhuga hvers og eins.

Hvað skal hafa með: Myndavél (eða síma með góðri myndavél), þrífót, hlý föt og nesti.

Áætlaður ferðatími: 2 til 5 klukkutímar

Erfiðleikastig: Mjög auðveldur, hugsanlega kaldur

Af hverju í ósköpunum?

Laugardagsrúnturinn þessa vikuna er allt annars eðlis en flestir. Í stað þess að hafa í höndunum nákvæma ferðaáætlun með hinum ýmsu áfangastöðum, þá ætlum við út í óvissuna í leit að norðurljósum. Þannig er í raun hægt að líta á þennan rúnt sem leiðbeiningar fyrir norðurljósaleit sem hægt er að nýta hvenær sem er. Þessi vetur hefur hingað til verið afskaplega góður hvað norðurljós varðar, enda göngum við nú í gegnum mikið virknitímabil. Því ættu þessar leiðbeiningar að geta komið að gagni næstu mánuði!

Íslendingum finnst oft fyndið eða skrítið að hugsa til þess að ferðamenn komi til Íslands og borgi leiðsagnarfyrirtækjum fúlgur fjár til þess að sýna þeim norðurljósin. Þau birtast bara fyrir ofan höfuðið á okkur ekki satt? Vissulega virðast slíkar ferðir skrýtnar fyrir okkur sem séð hafa norðurljósin út um eldhúsgluggann oftar en við getum talið, en sannleikurinn er sá að þær virkilega hjálpa þessum ferðamönnum að koma auga á ljósin. Það sem ákveðinn hópur Íslendinga, sérstaklega áhuga- og atvinnuljósmyndarar eða núverandi og fyrrum leiðsögumenn hefur hins vegar uppgötvað, rétt eins og þessir ferðamenn, er að þessar ferðir eru heilmikið fjör, af svipuðum ástæðum og það er fjör að veiða. Að sjá norðurljósin fyrir tilviljun er alltaf sérstakt, en sú tilfinning er margfölduð þegar þú sérð þau eftir að hafa lagt á ráðin og viljandi staðsett þig sem svo að þú finnir þau frekar. Það er hreinlega spennandi að elta þau og gaman að ná þeim!

Hvert skal fara?

Við þurfum að uppfylla þrjú skilyrði til þess að sjá norðurljósin upp á sitt besta: Það þarf að vera dimmt, það þarf að vera heiðskýrt og að sjálfsögðu þurfa norðurljósin sjálf að vera á himninum.

Hvað myrkrið varðar er lausnin afskaplega einföld: Bíða þar til það myrkvar og komast undan ljósmengun. Á höfuðborgarsvæðinu er ljósmengunin svo slæm að stundum dansa norðurljósin beint fyrir ofan fólk án þess að það sjái neitt. Hér á Akureyri er staðan ekki svo slæm og við sjáum reglulega ljósin innan úr bænum. Það hins vegar breytir því ekki að bærinn gefur frá sér ljósmengun, svo ef við sjáum norðurljós innan úr bænum, þá kæmu nákvæmlega sömu ljós okkur enn bjartar fyrir augum ef við værum bara aðeins fyrir utan bæinn. Þess vegna ætlum við að finna okkur stað í grenndinni þar sem ljósin frá bænum hverfa. Bílastæðið hjá Gásum er til dæmis mjög vinsælt í þessum tilgangi og fljótlegt að keyra þangað. Ef við erum til í að keyra aðeins lengra er líka hægt að fara inn Öxnadalinn eða lengra út fjörðinn. Einnig væri hægt að fara fram fjörðinn, til dæmis að Saurbæjarkirkju eða austur og upp á Víkurskarðið.

Þessi mynd er tekin frá Gásum og sýnir hvers vegna það er vinsæll staður til að skoða norðurljósin, enda er fjallagarður Eyjafjarðar ótrúlegur forgrunnur. Ljósmynd: RFJ

Næsta skilyrði er að við viljum hafa sem heiðskýrast. Þetta skilyrði er það sem vegur þyngst hvað val á staðsetningu varðar. Besta lausnin til þess að finna heiðan himinn er að bera saman mismunandi skýjahuluspár og halda þangað sem þeim kemur saman um að eigi að vera heiðskýrt. Tvær góðar eru norðurljósaspá Veðurstofunnar og Belgingur (stilla á „Ísland“ og „Skýjahuluspá“). Að sjálfsögðu er skýjahuluspáin, líkt og aðrar veðurspár, ófullkomin. Það jafnast ekkert á við að horfa sjálf upp í himininn á meðan við flökkum milli staða. Hafa skal í huga að háský geta skemmt útsýnið þó við sjáum engin ský með berum augum. Þess vegna leitum við alltaf að stjörnunum. Ef við erum ekki inni í ljósmengun og sjáum engin ský en sjáum samt engar stjörnur, þá eru háský að þvælast fyrir okkur.

Skýjahuluspár fyrir morgundaginn eru ekki í fullkomnu samræmi en líta vel út. Hugsanlegt er að háský þvælist fyrir sums staðar en eins og sjá má á þessari mynd, þá sjást sterk norðurljós oft í gegnum þynnri háský. Hér sést bjarmi norðurljósanna greinilega á bakvið Seljalandsfoss, þó svo að skýjin hleypi ekki mörgum stjörnum í gegn. Ljósmynd: RFJ

Hvernig veit ég hvort þau koma?

Síðasta skilyrðið sem þarf að uppfylla til þess að sjá norðurljós er það augljósasta, en líka það sem erfiðast er að spá fyrir um: Það þarf norðurljósavirkni. Spár um það hvort að norðurljós muni sjá sig eru ekki þær áreiðanlegastu, en við erum samt ekki alveg að giska út í loftið, heldur höfum við nokkra skala sem geta hjálpað okkur

Sá fyrsti er Kp skalinn. Þessi skali segir okkur ekki alla söguna, en líta má á hann sem ákveðið grunn skilyrði. Góð Kp tala tryggir okkur ekki norðurljós, en ef Kp skalinn er í núll, þá eru litlar sem engar líkur á að sjá ljósin. Kp skalinn gengur frá 0 til 9, en við þurfum ekki gríðarlega háa tölu til þess að sjá ljósin hér á landi. Á Íslandi getum við verið bjartsýn fyrir ljósavirkni svo lengi sem Kp er í tveimur eða hærra. Spár fyrir morgundaginn segja að Kp verði líklegast í þremur mest kvöldið, sem eru kjörin skilyrði fyrir okkur. Kp spána má finna í norðurljósaspá Veðurstofunnar.

Spár um norðurljósavirkni lengra fram í tímann treysta að miklu leyti á Kp skalann, en þegar við fylgjumst með í rauntíma getum við fengið gagnlegar upplýsingar af ýmsum toga. Síður líkt og Space weather live og hin ýmsu norðurljósa forrit sýna okkur alls kyns upplýsingar um sólarvind. Það getur verið afskaplega ruglandi að taka inn allar þessar upplýsingar, en við þurfum ekki að skilja vísindin á bakvið þetta allt saman til þess að upplýsingarnar komi að gagni. Þetta eru góðar þumalputta reglur: Við viljum hafa nægan hraða, nægan þéttleika („Solar wind speed“ og „Density“ þurfa að vera í hærri kantinum) og hinn svokallaði Bz skali þarf að vera til suðurs, þ.e.a.s., við viljum að Bz skalinn sýni mínus tölu. Ef við höfum þessa þrjá hluti í huga getum við einfaldlega safnað okkur upplýsinga um hversu líklegt það er að norðurljós láti sjá sig á næstu mínútum.

Hvernig næ ég góðum myndum?

Nú til dags taka flestir allar myndir á símann sinn. Þetta er skiljanlegt, enda eru símarnir einfaldir í notkun og nær alltaf við hendi. Margir símar nú til dags eru komnir með frábærar myndavélar sem ná norðurljósunum mjög vel, til að mynda voru allar myndir í þessari grein teknar með iPhone 14 síma og hafa ekkert verið unnar. Það eina sem við þurfum að passa er þetta: Þegar við tökum myndir af norðurljósum þá stillum við símann á nætur stillinguna og látum símann taka myndina yfir lengri tíma, svo sem mest ljós sé tekið inn. Myndir teknar með „shutter speed“ upp á 5 til 10 sekúndur sýna norðurljósin í öllu sínu veldi, jafnvel þó við sjáum þau ekki almennilega með berum augum. Þetta krefst þess að sjálfsögðu að halda símanum kyrrum svo myndirnar séu ekki hreyfðar. Þrífótur gagnast þar vel en stundum dugar að setjast niður og halda höndunum nálægt búknum, svo þær skjálfi ekki eins mikið.

Svo er alls kyns auka!

Að lokum ber að nefna að eltingaleikur við norðurljósin snýst ekki bara um norðurljósin sjálf. Þetta er frábært tækifæri til þess að njóta þess að horfa upp í stjörnubjartan himininn og keyra vegi sem við yfirleitt keyrum ekki í leit að glufu í skýjunum og finna alls kyns nýja staði. Slíkt ævintýri er líka fullkomið til þess að fara í smá lautarferð að vetri til. Ef maður klæðir sig vel, tekur með sér smákökur og kakó í hitabrúsa og grípur jafnvel útilegustólana sem gleymast inni í geymslu hálft árið, þá er hægt að njóta yndislegrar stundar undir stjörnunum með maka, fjölskyldu eða vinum, sama hvort norðurljósin láta sjá sig eða ekki.

Stundum er ekki langt að sækja ljósin! Ljósmynd: RFJ

Þannig hljóðar Laugardagsrúnturinn þessa vikuna. Hann var af talsvert öðru tagi en hann er yfirleitt, en markmiðið er alltaf það sama: Við vonumst til þess að Laugardagsrúnturinn hvetji þig til þess að skoða nærumhverfið og náttúruundrin betur og vonandi gátum við gefið þér einhverjar hugmyndir og hollráð þess efnis.

Sambíó

UMMÆLI