Þau Ólafur Gústafsson og Rut Arnfjörð Jónsdóttir skrifuðu í dag undir samninga við handboltaliðin KA og KA/Þór á Akureyri.
Ólafur skrifaði undir tveggja ára samning við KA en hann kemur til félagsins frá Kolding líkt og Árni Bragi Eyjólfsson sem skrifaði undir samning hjá KA fyrr í vikunni.
Rut skrifaði einnig undir tveggja ára samning og mun spila með KA/Þór. Hún kemur einnig frá Danmörku en hún hefur spilað með meistaraliði Esbjerg frá árinu 2017.
Ólafur á að baki 22 landsleiki fyrir Ísland en Rut á að baki 89 landsleiki þar sem hún hefur skorað 184 mörk.
„Við bjóðum þau Ólaf og Rut hjartanlega velkomin norður og hlökkum mjög til að sjá til þeirra á komandi vetri. Þarna eru á ferðinni hörkuleikmenn sem við ætlumst til mikils af og ljóst að sú mikla uppbygging sem hefur átt sér stað hjá karlaliði KA og kvennaliði KA/Þórs á undanförnum árum mun halda áfram með þau innanborðs,“ segir meðal annars á heimasíðu KA.
UMMÆLI