Laglína sem hljómar eins og ráðgáta

Laglína sem hljómar eins og ráðgáta

Hlaðvarpsþættir Sagnalistar Leyndardómar Hlíðarfjalls fóru í loftið í sumarlok. Frumsamin tónlist þáttanna er áberandi. Mystíkin svífur yfir vötnum í bland við ákveðinn drunga. Tónlistin á stóran þátt í að skapa þá stemningu sem efnistökin bjóða upp á.

Tvö stef (beats) liggja eins og rauður þráður í gegnum frásögn þáttanna fimm. Outside sem er upphafs- og lokastef þáttanna og Lost koma úr smiðju Óttars Arnar Brynjarssonar, öðru nafni 603 Beats. Þá á Óttar Örn einnig auglýsingastefið um miðbik þáttanna, Low Point.

Við kíktum í stúdíó 603 Beats og hittum sjálfan höfundinn. Við lögðum fyrir hann tvær spurningar um listsköpunina og stefin í þáttunum.

Hvaða græjur notarðu við tónsmíðarnar?

Ég nota forrit í MacBook Pro tölvu sem heitir Logic Pro X. Ég er með lítið hljómborð sem ég tengi við tölvuna og Drumpad til að búa til margskonar áslátt. Ég fer í gegnum hljóma og finn hvað mér finnst hljóma vel og bý til melodíur út frá því. Það er ekki nóg að vera með græjurnar, maður þarf líka að skapa.

Hvað geturðu sagt okkur um stefin tvö sem hljóma undir í þáttunum?

Þegar ég samdi Outside og var kominn með píanó-laglínuna, vissi ég að þar væri ég kominn með laglínu sem hljómaði eins og pínu ráðgáta. Ég bætti svo við hljómum, sem kannski heyrast ekki vel eins og strengjum sem bæta samt miklu við. Kirkjukukkurnar byggja upp enn meiri spennu áður en trommurnar koma inn. Lost er líkt Outside, svipuð uppbygging og eitthvað dularfullt.

Við þökkum 603 Beats fyrir spjallið. Gaman verður að fylgjast með honum í framtíðinni í tónlistarheiminum.

Hér má hlusta á efni úr smiðju 603 Beats.

Hér má hlusta á Leyndardóma Hlíðarfjalls.

Heimild: Sagnalist

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó