Læknastofur Akureyrar munu hefja sýnatökur fyrir almenning vegna Covid-19 næstkomandi mánudag, þann 6. apríl, í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu.
Ingibjörg Isakesen, framkvæmdastjóri Læknastofu Akureyrar, segir í samtali við Vikudag að í þessu fordæmalausa ástandi sé öllum aðgerðum frestað og því vilji Læknastofurnar leggja sitt af mörkum til samfélagsins.
„Við viljum hjálpa til þar sem við getum. Þegar við sáum að við gátum nýtt starfsfólkið okkar í verkefnið var þetta ekki spurning því í svona ástandi er mikilvægt að allir taki höndum saman. Sýnatökurnar eru fyrir alla, einkennalausa sem og einkennalitla,“ segir Ingibjörg á Vikudagur.is.
Sýnatökurnar verða öllum að kostnaðarlausu og fara tímapantanir fram í gegnum vef Íslenskrar erfðagreiningar.
Sýnatökur verða mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga frá klukkan 9 til 16 og fara fram við Glerártorg, að norðanverðu (bak við Bakaríð við brúna). Keyrt er upp rampinn, hjúkrunarfræðingur kemur út og tekur sýni og að sýnatöku lokinni er bakkað niður aftur.
UMMÆLI