Kynningarrit um þjónandi leiðsögn

Akureyrarbær hefur gefið út sérstakt kynningarrit um „þjónandi leiðsögn.“ Þjónandi leiðsögn hefur verið grundvallarþáttur í hugmyndafræði og aðferðum búsetusviðs Akureyrarbæjar í þjónustu við einstaklinga með fötlun og allri starfsemi Öldrunarheimila Akureyrar.

Tilgangurinn með útgáfunni er að taka saman og miðla nokkrum af þeim áherslum og aðferðum sem lögð eru til grundvallar í þjónandi leiðsögn. Akureyrarkaupstaður hefur í mörg ár verið leiðandi sveitarfélag í vinnu með þessa hugmyndafræði í velferðarþjónustu á Íslandi.

Ákveðið var á árinu 2013 að innleiða hugmyndafræði og áherslur þjónandi leiðsagnar í alla þjónustu fyrir fatlaða og aldraða. Við innleiðingu á þjónandi leiðsögn hafa tæplega 500 almennir starfsmenn innan búsetusviðs og hjá Öldrunarheimilum Akureyrar fengið fræðslu.

Mikill áhugi er víða innan velferðarþjónustunnar á Íslandi fyrir að fá kynningar og námskeið um þjónandi leiðsögn. Jafnframt er vaxandi áhugi á að koma á samstarfi milli einstakra sveitarfélaga og starfsfólks búsetusviðs og Öldrunarheimilanna. Miðlun þekkingar og reynslu ásamt samstarfi við annað fagfólk innanlands og erlendis er stór þáttur í því hlutverki sem starfsfólk Akureyrarbæjar hefur sinnt gagnvart innleiðingu þjónandi leiðsagnar. Heimsóknir, vinnuskipti og þjálfun eru hluti af miðluninni sem hefur örvað áhuga og metnað starfsfólksins og m.a. birtist í myndarlegri alþjóðlegri ráðstefnu um þjónandi leiðsögn sem haldin var á Akureyri í september 2016.

Kynningarritinu um þjónandi leiðsögn er dreift til þátttakenda sem sátu alþjóðlega ráðstefnu á Akureyri og einnig til fjölda lykilstofnana og allra sveitarfélaga á landinu. Ritið er einnig rafrænt og aðgengilegt á heimasíðu Akureyrarbæjar og fésbókarsíðu um þjónandi leiðsögn.

Hér má finna rafræna útgáfu kynningarritsins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó