NTC

Kynferðisofbeldi gagnvart stúlkum í grunnskólum: staðan virðist vera verri á Akureyri

Kynferðisofbeldi gagnvart stúlkum í grunnskólum: staðan virðist vera verri á Akureyri

Íslenska æskulýðsrannsóknin er rannsókn sem Háskóli Íslands framkvæmir fyrir Mennta- og barnamálaráðuneytið. Markmiðið er að safna gögnum um velferð og viðhorf barna og ungs fólks og gera niðurstöðurnar aðgengilegar til að styðja við stefnumótun.

Sjá einnig: Íslenska æskulýðsrannsóknin: Akureyrarbær stendur vel á mörgum sviðum en ákveðnir þættir sem þörf er á að vinna í

Ein af hverjum fimm!
Í rannsókninni kemur m.a. fram að 20% stúlkna í 10. bekk í grunnskólum Akureyrarbæjar svari því að þær hafi upplifað að annar unglingur hafi haft munnmök eða samfarir við þær gegn þeirra vilja. Ein af hverjum fimm! Þegar önnur landsvæði en Norðurland eystra eru skoðuð er sambærilegt hlutfall 14%.  Í dag er nauðgun skilgreind í lagalegu samhengi út frá samþykki sem þýðir að ef samræði eða önnur kynferðismök eru höfð við manneskju án samþykkis þá er um nauðgun að ræða.

Fullorðnir einstaklingar

Þá svara 22% stúlkna í 10.bekk grunnskóla Akureyrarbæjar því að þær hafi upplifað að einstaklingur a.m.k. 5 árum eldri, eða fullorðinn hafi snert/káfað á þeim, en 17% stúlkna í 10. bekk á öðrum landsvæðum en á Norðurlandi eystra. Þá segjast 12% stúlkna í 10.bekk í grunnskólum Akureyrarbæjar hafa upplifað að einstaklingur a.m.k 5 árum eldri en þær hafi reynt að hafa samfarir eða munnmök við þær, hlutfallið á öðrum landsvæðum er 9%. 7% stúlkna í 10.bekk í grunnskólum Akureyrarbæjar segjast hafa upplifað að einstaklingur a.m.k. 5 árum eldri en þær hafi haft munnmök eða samfarir við þær, en 4% stúlkna á öðrum landsvæðum.

Nektarmyndir og klámfengin skilaboð

Þá segjast 64% stúlkna í 10. bekk í grunnskólum Akureyrarbæjar að þær hafi verið beðnar um að senda nektarmyndir, en 55% stúlkna í 10. bekk á öðrum landsvæðum en á Norðurlandi eystra. Þá segjast 64% stúlkna í 10. bekk grunnskóla Akureyrarbæjar að þær hafi fengið óumbeðin klámfengin skilaboð, en 57% stúlkna í 10. bekk á öðrum landsvæðum en Norðurlandi eystra hafa sömu sögu að segja.

Staðan má ekki vera í lagi

Þegar staða stúlkna í 10. bekk á Akureyri er skoðuð sérstaklega ber að taka fram að um 73% þeirra svöruðu spurningunum eða 103 stúlkur af 131. Þrátt fyrir að niðurstöður þess hóps séu dregnar sérstaklega fram í þessari grein má einnig sjá alvarlega stöðu er varðar aðra aldurshópa. Þessum niðurstöður ber að taka alvarlega, staðan má einfaldlega ekki vera í lagi.  Ég mun óska eftir umræðu um þessar niðurstöður í bæjarstjórn og leggja til að gerð verði áætlun um hvernig Akureyrarbær muni bregðast við, en ég tel að öll sem koma að velferð barna þurfi þar að koma að málum.

Hilda Jana Gísladóttir
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó