Kvikmyndagagnrýni – Dunkirk: Spenna, spenna og aftur spenna.

Kvikmyndagagnrýni – Dunkirk: Spenna, spenna og aftur spenna.

Dunkirk er ný mynd frá leikstjóranum Christopher Nolan, sem margir  þekkja fyrir „The Dark Knight“ eða „Inception“. Þeir sem hafa séð þessar frábæru myndir vita að Nolan gerir mjög sjónrænar myndir og vandar sig við hvert einasta skot. Einnig tekur hann tónlist og hljóð mjög alvarlega og hefur hann oft með sér hinn sjálfmenntaða tónlistarsmið Hans Zimmer.

Myndin fjallar um raunverulega atburði sem áttu sér stað árið 1940 í Seinni Heimsstyrjöldinni. Eftir innrás Nasista í Frakkland tókst þeim fljótt að umkringja Breska og Franska herinn við lítinn bæ við Ermasund, sem heitir einmitt nafninu, Dunkirk. 400.000 ungir menn sátu á ströndinni og gátu lítið annað gert en að bíða eftir dauðanum. Í örvæntingu sinni um hættuna á gjöreyðingu Breska hersins kallaði Breska þingið út allar skútur, trillur og hvern einasta fljótandi bát, til að fara yfir til Dunkirk og bjarga hermönnunum.

Það eru ekki margar myndir byggðar á raunvörulegum atburðum sem fylgja atburðunum jafn nákvæmlega. Þótt sagan af persónunum sem við sjáum á skjánum sé ekki endilega sönn þá er allt sem þeir lenda í mjög raunverulegt. Engin ótrúleg atvik sem eru hreinn og beinn skáldskapur. Nolan er ekki hræddur við að sýna manni verstu hliðar stríðsins.

Spennan í myndinni er líka yfirþyrmandi. Tónlistin eftir Hans Zimmer er mikið byggð á klukkutifi og því meiri sem spennan er, því hraðar slær klukkan. Ég man sérstaklega að ég fann hjartað á mér stundum slá í takt við tifið sem magnaði spennuna enn meira. Hávaðinn frá sprengingum, byssukúlum og ýlfrandi sprengivélum (Stuka) var eitt það magnaðasta sem ég hef heyrt.

Einnig frábærir leikarar í myndinni. Mikla athygli vakti að Harry Styles, fyrrverandi meðlimur hljómsveitarinnar One Direction, fór með hlutverk í sinni fyrstu bíómynd. Hann stóð sig frábærlega. Það sem einkennir þessa mynd svolítið er skortur á samræðum í myndinni. Hún er nánast eingöngu sjónræn og hljóðræn. Einu línurnar sem koma fram í myndinni skipta þó miklu máli. Leikararnir koma þeim vel til skila.

Mæli eindregið með þessari mynd. Þó helst ekki fyrir hjartveika. Ég sjálfur átti stundum erfitt með að kippa mér ekki upp við sprengingarnar. Mæli þá sérstaklega með að fara á hana í bíó frekar en að niðurhala henni. Nolan slær gjörsamlega í gegn með þessu meistaraverki og fangar hræðsluna og allar tilfynningarnar sem þessir dátar þurftu að upplifa og maður vikrilega fann til með þeim. Þessi mynd er þó engin skemmtun. Held ég kíki á hana aftur í bíó til að melta hana betur.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó