NTC

Kveikt á kerti til minningar um Bryndísi Klöru

Kveikt á kerti til minningar um Bryndísi Klöru

Anna Björt Sigurðardóttir hvetur landsmenn til að kveikja á friðarkerti við heimili sín á föstudaginn næstkomandi, 13. september, til minningar um Bryndísi Klöru Birgissdóttur, sem verður jarðsungin þann dag. Með framtakinu vill hún aðstoða fólk við að finna tilfinningum sínum farveg; sýna samhug, kærleika og vekja samfélagið til umhugsunar um hvernig hægt sé að lágmarka hættu á að svona atburður endurtaki sig.

„Ég einfaldlega upplifi mikinn vanmátt og gríðarlega sorg yfir því á hvaða stað við erum komin sem samfélag. Þess vegna vildi ég gera eitthvað til þess að hjálpa þótt ég viti, að ekkert í heiminum mun bæta þá sorg sem fjölskylda og nánustu aðstandendur þessarar ungu stúlku standa frammi fyrir,“ segir Anna Björt, sem hafði samband við matvöruverslanirnar Krónuna, Bónus, Nettó, Hagkaup og Kjörbúðina í byrjun vikunnar til að óska eftir aðstoð þeirra við að minnast Bryndísar Klöru með því að hefja sölu á friðarkertum í aðdraganda jarðarfarar hennar.

Allur ágóði í minningarsjóð

Jafnframt lagði hún til að allur ágóði af sölu kertanna rynni óskiptur í Minningarsjóð Bryndísar, sem er í umsjón KPMG og forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, er verndari yfir. Sjóðurinn mun styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni.

Allar verslanirnar tóku vel í frumkvæði Önnu Bjartar og verða friðarkerti til sölu í verslunum Krónunnar, Bónuss, Nettó, Hagkaups og Kjörbúðarinnar þar sem ágóðinn rennur beint í minningarsjóðinn. Fólki er auðvitað einnig frjálst að kveikja á eigin kertum til að taka þátt í þessari minningarathöfn landsmanna. Þeir sem eru aflögufærir geta millifært beint inná reikning minningarsjóðsins, 0515-14-171717, kennitala 430924-0600.

Gott samfélag fyrir öll börn

Anna Björt vill taka fram að hún hefur engin tengsl við fjölskyldu Bryndísar Klöru en fékk hugmyndina vegna þessa sorglega atburðar á Menningarnótt og að hennar mati þeirrar alvarlegu stöðu sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna algengi hnífaburðar og auknu ofbeldi meðal ungs fólks.Hún hefur ráðfært sig við prest fjölskyldunnar til að upplýsa þau um framtakið.

„Ég vona að við bregðumst öll vel við þessu framtaki með kaupum á kerti og leyfum því að loga fyrir Bryndísi Klöru úti á stétt heima hjá okkur eftir sólsetur á sjálfan jarðarfarardaginn. Ég held að þjóðfélagið okkar þurfi einhver verkfæri til þess að votta samúð sína og sýna samstöðu gegn þessari þróun ofbeldis og mér finnst þetta falleg leið til þess,“ segir Anna Björt sem tekur jafnframt fram að hún eigi engra hagsmuna að gæta. „Ég er bara ósköp venjuleg móðir sem þráir ekkert annað en fallegt, gott og öruggt samfélag fyrir barnið mitt og börn annarra.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó