Kuldamet féllu í vikunni

Mynd: Þóra Karlsdóttir.

Föstudagurinn 29. desember var kaldasti dagur ársins til þessa á Íslandi. Það var sérstaklega kalt norðaustanlands og mest fréttist af -29,0 stigum í Svartárkoti.

Það er mesta frost sem mælst hefur á landinu frá því 6. desember 2013, en þá fór frostið við Mývatn í -31,0 stig.

Í desember hefur ekki mælst meira frost síðan mælingar hófust á Ólafsfirði, Mývatnsheiði og Svartárkoti. Þá hefur ekki mælst meira frost í desember við Krossanesbrautina á Akureyri síðan mælingar hófust þar árið 2005.

Við Akureyrarflugvöll mældist talsvert kaldara en við veðurstöðina í Krossanesbraut en þar mældust -23,0 stig. Gefur það líklega betri mynd af kuldanum í innbæ og jafnvel miðbæ Akureyrar.

Víðir Gíslason flugmaður kallar eftir því að bætt verði annarri veðurstöð á Akureyri.

„Veðurstöðin í Krossanesbraut segir ekki nema hálfa sögu um hitastig á Akureyri í svona veðurlagi. 
Munað getur mörgum gráðum á hitafari á heitustu og köldustu dögum. Það vantar aðra veðurstöð sem nær þessum sveiflum.“

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó