NTC

„Kristneshæli var griðastaður og heimili en einnig afplánun og endastöð“

Brynjar Karl Óttarsson er rithöfundur og útgefandi á Akureyri.

Kristneshæli í Eyjafjarðarsveit fagnaði 90 ára afmæli 1. nóvember sl. og bókin Í fjarlægð – Saga berklasjúklinga á Kristneshæli eftir Brynjar Karl Óttarsson, rithöfund og útgefanda á Akureyri, kom út af því tilefni. Bókin flytur lesandann á slóðir vistmanna á heilsuhæli um miðja 20. öldina og lýsir baráttunni gegn þeim illvíga sjúkdómi sem berklarnir voru á þeim tíma.

Eyjafjörður fór ekki varhluta af þeim skörðum sem berklarnir hjuggu en með samstilltu átaki tókst Eyfirðingum og landsmönnum öllum að snúa vörn í sókn og reisa heilsuhæli fyrir berklasjúklinga á Norðurlandi. Bókin byggir að miklu leyti á sögum fyrrverandi vistmanna á Kristneshæli sem höfundur hefur skrásett um 17 ára skeið. Sögurnar, sem hvergi hafa birst áður, gefa innsýn í daglegt líf á Hælinu.

Brynjar kemur hér með aðra bók sína um Kristnes og Kristneshæli á jafnmörgum árum. Fyrir jólin 2016 kom út bókin Lífið í Kristnesþorpi sem segir sögur fólksins sem búið hefur í návist við Kristneshæli og síðar Kristnesspítala. Brynjar fjármagnar bækurnar sjálfur og gefur út á vegum sprotafyrirtækis síns Grenndargralið. Upphaf Grenndargralsins má rekja aftur til ársins 2008 þegar Brynjar þróaði verkefni í grenndarkennslu fyrir grunnskólanemendur sem hann kallaði Leitina að Grenndargralinu. Brynjar hlaut styrk frá Hagþenki – félagi höfunda fræðirita og kennslugagna vorið 2016 til að skrifa bækurnar tvær.

Berklarnir – sannkallað þjóðarmein

Berklarnir voru sannkallað þjóðarmein í upphafi 20. aldar. Kristneshæli var vígt árið 1927 og þjónaði sínu upphaflega hlutverki til ársins 1960. Á þessum rúmu þremur áratugum varð Kristnes örlagavaldur í lífi barna og fullorðinna sem þar dvöldust. Endalaus bið og tilbreytingarsnauð tilvera þar sem dauðinn var daglegt brauð knúði á frumkvæði og framtakssemi sjúklinga. Stofnun hagsmunasamtaka, bætt vinnuaðstaða og fjölbreyttara félagslíf gerði hið daglega líf berklasjúklingsins bærilegra. Í bland við sögur vistmanna er stuðst við dagbækur, sendibréf, blaðagreinar, fundargerðabækur og fleiri heimildir. Bókin samanstendur af fræðilegri umfjöllun og sögulegum skáldskap auk fjölda áður óbirtra ljósmynda sem glæða frásögnina lífi. Afraksturinn er heildstæð samantekt um líf fólksins á Kristneshæli.

Aðgengilegt uppflettirit um líf fólksins

Brynjar Karl, höfundar bókanna tveggja, ólst upp í Kristnesþorpi og hefur eytt mörgum árum í að taka saman heimildir um staðinn.

 „Ég ólst upp í Kristnesþorpi á 9. áratugnum og hef eytt stórum hluta ævinnar í að taka saman heimildir um staðinn. Ekki síst hef ég eytt tíma í að taka viðtöl við fyrrverandi vistmenn Hælisins. Með bókunum vildi ég gera tilraun til að taka saman frásagnir og heimildir af ýmsu tagi, í máli og myndum og blanda þeim saman þannig að útkoman yrði aðgengilegt uppflettirit um líf fólksins í Kristnesþorpi og á Kristneshæli. Með bókinni gefst tækifæri til að skyggnast inn í samfélag sem á sér fáar hliðstæður, samfélag sem í fljótu bragði virðist tilheyra grárri forneskju en er samt svo nærri. Þarna varð hlutskipti margra að dveljast á berklahæli svo árum skipti án þess að fá bata og síðar átti Þorpið eftir að blómstra með iðandi mannlífi.“

Greinin birtist upphaflega í vikublaði Norðurlands 25. janúar. 

Kápa bókarinnar: Í fjarlægð – Saga berklasjúklinga á Kristneshæli.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó