Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hyggst ekki leita endurkjörs í alþingiskosningunum, sem fram fara í haust. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Kristján Þór í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
„Ég hef hugsað þetta og búinn að gera það upp við mig, að þetta sé orðið gott eftir 35 ára þjónustu í stjórnmálum og ætla því ekki að leita endurkjörs í haust,“ segir Kristján Þór í viðtalinu.
Kristján segir þó að hann verði áfram virkur í Sjálfstæðisflokknum og muni ekki draga sig alveg í hlé frá stjórnmálum. Hann verði þó ekki áfram í flokksforystunni að þessu kjörtímabili loknu.
Ferill Kristjáns í stjórnmálum hófst þegar hann var 29 ára ráðinn bæjarstjóri á Dalvík. Síðar varð hann bæjarstjóri á Ísafirði og Akureyri. Hann var kjörinn á Alþingi 2007 og varð ráðherra árið 2013. Hann hefur setið í öllum ríkisstjórnum síðan þá. Kristján hefur gegnt embætti heilbrigðisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og loks sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
UMMÆLI