Kristján Örn tryggði Þórsurum sigur á Leikni F.

Kristján Örn (til vinstri) skoraði sigurmark Þórs í dag.

Þórsarar fengu Leikni F. í heimsókn á Þórsvöll í 10. umferð Inkasso deildarinnar í knattspyrnu í kvöld. Leikurinn hófst klukkan 19:15 í sól og blíðu á Akureyri.

Gunnar Örvar Stefánsson fékk tækifæri í byrjunarliði Þórs í fjarveru Jóhanns Helga Hannessonar sem var í banni. Gunnar þakkaði pent fyrir sig og kom Þór yfir 1-0 á 21. mínútu eftir frábæran sprett frá Jónasi Björgvin Sigurbergssyni. Munurinn hefði hæglega getað verið meiri í hálfleik en Þórsurum mistókst að skora fleiri mörk áður en Sigurður Þrastarson dómari leiksins flautaði til loka fyrri hálfleiks.

Leikurinn spilaðist svipað í seinni hálfleik en Þórsarar náðu ekki að koma boltanum í netið. Jesus Guerrero skoraði draumamark þegar hann smellti boltanum í netið hjá Þór af löngu færi á 71. mínútu.

Kristján Örn Sigurðsson varnarmaður Þórs náði hinsvegar að tryggja sigur í leiknum með marki á 89. mínútu leiksins eftir að boltinn datt fyrir hann inn í teig andstæðinganna. Þórsarar halda því áfram að setja pressu á topplið deildarinnar. Liðið er í 4. sæti deildarinnar með 18 stig.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó