NTC

Kristinn G. Jóhannsson og Rebekka Kühnis opna sýningar í Listasafninu á Akureyri 

Kristinn G. Jóhannsson og Rebekka Kühnis opna sýningar í Listasafninu á Akureyri 

Laugardaginn 24. september kl. 15 verða sýningar Kristins G. Jóhannssonar, Málverk, og Rebekku Kühnis, Innan víðáttunnar, opnaðar í Listasafninu á Akureyri.

Kristinn G. Jóhannsson er fæddur 1936 og nam myndlist á Akureyri, í Reykjavík og Edinburgh College of Art. Hann lauk kennaraprófi 1962 og starfaði við kennslu og skólastjórn í tæpa fjóra áratugi. Kristinn efndi til fyrstu sýningar sinnar á Akureyri 1954, en sýndi fyrst í Reykjavík 1962 í Bogasal Þjóðminjasafnsins og sama ár tók hann í fyrsta sinn þátt í Haustsýningu FÍM í Listamannaskálanum. Hann hefur síðan verið virkur á sýningavettvangi. Auk málverka liggja eftir Kristin grafíkverk þar sem hann sækir efni í gamlan íslenskan útskurð og vefnað. Hann hefur myndskreytt fjölda bóka m.a. Nonnabækur og þjóðsögur.

„Ég hefi árum saman gengið til litgrasa og forma í brekkurnar og heiðina sem við mér blasa dag hvern og í spegil Pollsins og í vaðlana, ofið saman litbrigði jarðarinnar með mínum hætti. Í þessum nýlegu málverkum leitar landslagið og málverkið eins konar jafnvægis, sátta,“ segir Kristinn. Sýningarstjóri er Brynhildur Kristinsdóttir.

Landslag skynjunar

Rebekka Kühnis er frá Windisch í Sviss, fædd 1976 og útskrifaðist með meistaragráðu í listkennslufræðum frá Hochschule der Künste í Bern. Síðan hefur hún starfað sem listakona og myndlistarkennari. Hún flutti til Akureyrar 2015.

„Ég hef alla tíð haft listræna þörf fyrir að leysa upp umhverfi mitt, eða í það minnsta að umbreyta því í eitthvað loftkenndara og óljósara,“ segir Rebekka. Ég upplifi íslenska náttúru sem ósnortna og ekki eins skilgreinda og afmarkaða eins og náttúruna í heimalandi mínu. Það er eins og allt sé kvikt og breytilegt og að ég sé hluti þess alls. Þessi skynjun birtist í túlkun minni á íslensku landslagi. Verkin einkennast af fjölmörgum viðfangsefnum, s.s. tvíræðni, gagnsæi, hreyfingu og marglögun. Kannanir á möguleikum línulegrar framsetningar leika stórt hlutverk í þessu samhengi. Hingað til hef ég aðallega notað grafíska tækni í verkum mínum, en á þessari sýningu mun ég í fyrsta sinn sýna olíumálverk.“

Sambíó

UMMÆLI