Kristín S. Bjarnadóttir er Manneskja ársins 2024 samkvæmt lesendum Kaffið.is. Kristín vann sigur í kosningu Kaffið.is með 2009 atkvæði.
Í spjalli við Kaffið.is segir Kristín að tilnefningin og nafnbótin séu ekki einungis fyrir hana heldur fólkið sem hefur unnið með henni í því að styðja við bakið á fólkinu á Gaza. „Þakka þeim sem hafa staðið með mér, þessi tilnefning er fyrir hópinn á bakvið mig því ég er ekki ein” segir Kristín.
Kristín, ásamt fleirum, hefur síðan í sumar stutt um 300 manns frá stríðshrjáðu Gaza svæðinu með styrkjum þar sem yfirgnæfandi hluti þeirra eru ungir foreldrar og börn. Kristín sjálf byrjaði snemma í júní á því að styrkja unga konu með tvö börn eftir að maður hennar týndist. Síðan þá hefur verkefnið undið upp á sig enda er ástandið gríðarlega alvarlegt og þörfin fyrir aðstoð mjög brýn.
Kristín er hjúkrunarfræðingur að mennt og hefur sérhæft sig í líknarhjúkrun og stuðningur hennar er ekki einungis í gegnum fjárframlög heldur hefur hún einnig sinnt sálgæslu yfir netið sem er sannarlega mikilvæg.
Aðspurð hvað fólk geti gert til þess að aðstoða bendir Kristín fólki á að leggja beint inn à gofundme reikninga fólksins sem er að leita eftir hjálp. Þeir eru mjög öruggir og sjálf hefur hún auk þess staðfest staðsetningu fólks með myndsímtölum. Einnig er velkomið að leggja inn á hennar reikning og hún áframsendir í gegnum gofundme reikninga persónulega til fjölskyldnanna: 130668-5189, 0162 26 13668.
Einnig hvetur hún fólk til þess að samþykkja eins og eina vinabeiðni á Facebook frá Gaza. Upplagt sé að gerast vinafjölskylda fjölskyldu þar, hún bjóðist til að milliganga það. Allra mikilvægast sé að öll reyni að gera eitthvað til stuðnings og til að mótmæla þjóðarmorðinu, allt sé betra en að líta undan, það sé ekki í boði.
Kaffið.is stendur árlega fyrir kosningu á Manneskju ársins hér á vefnum. Lesendur senda inn tilnefningar og fá síðan að kjósa á milli þeirra einstaklinga sem hlutu flestar tilnefningar. Góðgerðasamtök og hjálparstarfsemi var Akureyringum og öðrum Norðlendingum mikilvæg í ár ef marka má úrslitin.
Í öðru sæti kosningarinnar voru hjálparsamtökin Norðurhjálp með 1540 atkvæði og í þriðja sæti var Sigrún Steinarsdóttir hjá Matargjöfum Akureyrar og nágrennis með 1362 atkvæði.
UMMÆLI