Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingkona Samfylkingarinnar úr Norðausturkjördæmi hefur lagt fram fyrirspurn til Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, um fjármögnun þjónustu SÁÁ og meðferðarúrræði utan höfuðborgarsvæðisins.
Bæjarstjórn Akureyrar lýsti á dögunum yfir óánægju með þau áform SÁÁ að loka göngudeild sinni á Akureyri næstu áramót. Lítið hefur gengið í viðræðum Akureyrarbæjar við ríkið og SÁÁ um að tryggja starfsemina áfram á Akureyri.
Sjá einnig: Fordæma áform SÁÁ: „Þetta er með öllu óþolandi”
Albertína vill fá svör við eftirfarandi spurningum:
1. Hver er staða fjármögnunar göngudeildarþjónustu SÁÁ á Akureyri?
2. Hvaða önnur meðferðarúrræði eru í boði utan höfuðborgarsvæðisins fyrir þá sem glíma við áfengis- og vímuefnavandamál?
3. Hvaða almennu geðheilbrigðisúrræði eru í boði utan höfuðborgarsvæðisins fyrir þá sem glíma við geðræn vandamál eða tvíþættan vanda?
4. Telur ráðherra gagnlegt með tilliti til jafnræðis að skilyrt verði í fjárlögum hvers árs sérstök fjármögnun meðferðarúrræða utan höfuðborgarsvæðisins?
Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri, segist vera ánægð með fyrirspurnina á Facebook síðu sinni í dag. Hún hlakkar til að fá svör við þessum spurningum en Hilda hefur áður sagt að það sé algjörlega óásættanlegt að göngudeild SÁÁ á Akureyri verði lokað um áramótin.
„Ég hef kafað af miklum eldmóði ofaní þetta mál og verð ég að segja eftir þá vegferð að það sem hefur komið mér lang mest á óvart er viljaleysi bæði SÁÁ og Velferðaráðuneytisins til þess að leita lausna. Báðir aðilar virðast langþreyttir og hundleiðir á hvor öðrum og ég tel engar líkur á því að málið leysist þeirra á milli.”