Á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku voru samþykktar samhljóða þrjár ályktanir er lúta að tekju- og kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ein af þessum tillögum snýr að daggjöldum Öldrunarheimila á Akureyri. Fjallað var um þann kostnað sem fallið hefur á Akureyrarbæ vegna rekstrar Öldrunarheimila Akureyrarbæjar á síðustu árum en ríkinu ber að standa straum af.
Bæjarstjórn skorar á stjórnvöld, fjármálaráðherra og tilvonandi þingmenn að beita sér fyrir breytingum á núgildandi lögum og reglum er snú að daggjöldum til hjúkrunarheimilar. Í ályktun bæjarstjórnar segir: „Daggjöld hafa ekki fylgt þeirri þróun sem orðið hefur á kjarasamningsbundnum launum á liðnum árum og nú er svo komið að daggjöld duga rétt fyrir launum en annar rekstarkostnaður er borinn uppi af rekstraraðilum hjúkrunarheimila. Fyrir liggur að ríkinu ber að annast þessa þjónustu og daggjöld eiga að endurspegla raunverulegan rekstrarkostnað heimilanna sem byggir á þjónustustöðlum sem settir eru af ríkinu.“
Akureyrarbær hefur á s.l. fimm árum greitt með rekstri Öldrunarheimila Akureyrarbæjar 843 milljónir króna og felur bæjarstjórn bæjarstjóra og bæjarlögmanni að leita réttar sveitarfélagsins til greiðslu á þeim kostnaði sem fallið hefur á sveitarfélagið vegna rekstursins. Það er ófrávíkjanleg krafa að ríkið standi undir greiðslum vegna þeirrar þjónustu sem það ber ábyrgð á samkvæmt lögum.
UMMÆLI