Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður sóknarnefndar Akureyrarkirkju segir í pistli á Facebook síðu sinni að kostnaður kirkjunnar við úrbætur muni hlaupa á hundruðum þúsunda. Það mun óhjákvæmilega mun bitna á safnaðarstarfinu næstu misserin.
Ólafur Rúnar segir að mörgum sé brugðið eftir skemmdarverkin sem unnin voru en mikilvægt sé að halda ró sinni og takast á við verkefnið af æðruleysi.
Pistilinn í heild má sjá hér að neðan:
Vaskir menn frá Car-X og Þrif & ræstivörum standa nú vaktina og reyna að vinna á skemmdarverkum sem unnin voru á Akureyrarkirkju í fyrrinótt. Ljóst er að skemmdir eru verulegar og skeljasandurinn hefur tekið upp lit úr spreyinu sem notað var við ódæðið.
Reynt er að vinna á skemmdunum með sódablæstri. Vel tókst hjá Car-X og Þrif & ræstivörum að verka fordyr kirkjunnar. Skemmdirnar á skeljaklæðningunni virðast á hinn bóginn vera þannig að fjarlægja þurfi hana og freista þess að endurnýja með einhverjum hætti.
Akureyrarkirkja er ekki bara ein af táknmyndum bæjarins. Ekki verður tölu komið á það fólk sem hefur upplifað stórar stundir í lífshlaupi sínu í kirkjunni, bæði stundir gleði og sorgar, við skírn barna, hjónavígslu, fermingu eða útför ástvina að ógleymdu helgihaldi um jól sem nú eru að renna sitt skeið einu sinni enn. Mörgum er mjög brugðið við þessa atlögu að kirkjunni okkar.
Þegar er ljóst að kostnaður kirkjunnar við úrbætur mun hlaupa á hundruðum þúsunda sem óhjákvæmilega mun bitna á safnaðarstarfinu næstu misserin. En koma dagar og koma ráð. Nú ríður á sem aldrei fyrr að halda ró sinni og takast á við verkefnið af æðruleysi og yfirvegun.
Í dag hefur starfsfólk kirkjunnar og sóknarnefnd mætt góðum vilja úr öllum áttum til að lagfæra skemmdirnar og vil ég þakka einarðlega þann góða hug og stuðning sem Akureyrarkirkju er þannig sýndur.
Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður sóknarnefndar Akureyrarkirkju
UMMÆLI