NTC

Kosningakaffið: Allt sem þú þorðir ekki að viðurkenna að þú vissir ekki um stjórnmál


Fyrir ekki svo löngu síðan var ég ung. Þá var ég í Menntaskólanum á Akureyri og á þeim aldri fékk ég kosningarétt þegar ég varð 18 ára. Þá var sífellt fólk að predika yfir mér að ég yrði að nýta þennan nýja rétt minn í samfélaginu og kjósa.
Það komu fulltrúar stjórnmálaflokka í skólann og fóru yfir hvað þeir ætluðu að gera ef þeir yrðu kosnir. Fyrsta sæti, annað sæti, Framsókn, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, fullt af pólitíkusum sem að ég skildi hvorki upp né niður í. Ég hafði bara ekki hugmynd um hvernig kosningakerfið, stjórnmálakerfið eða neitt virkaði yfir höfuð. Bara svona þetta venjulega sem allir vita, þetta fólk vill komast á Alþingi og stjórna landinu.

Ég hugsaði oft á þeim tíma að ég hefði verið meira en til í að einhver mundi útskýra þetta fyrir mér á mannamáli en ekki í þurrum og leiðinlegum stjórnmálafræðiáfanga þar sem að ég komst engu nær um þetta allt saman.
Þegar ég náði svo ákveðnum aldri var það orðið of seint og bara mjög vandræðalegt að viðurkenna vanþekkingu mína á þessu sviði, sérstaklega í ljósi þess að ég var á félagsvísindasviði og lítið annað kennt þar en einmitt stjórnmál. Einhvern veginn fór þetta ,,einfalda“ kerfi alveg framhjá mér og ég þorði ekki að viðurkenna það að ég vissi ekkert. Þess vegna ætla ég að útskýra þetta núna, á sem stystan hátt, fyrir þeim sem e.t.v. eru í sömu sporum. Ég held að ég sé loksins farin að skilja þetta.

– Á Alþingi sitja 63 þingmenn.
– Í framboði til næstu kosninga er fólk sem vill sitja í þessum sætum.
– Hver flokkur hefur ákveðið marga þingmenn og raða þeim eftir röð. T.d. ef við gefum okkur að Píratar séu með 20 manns á listanum sínum þá er þeim raðað í röð eftir því hvern þeir vilja helst á þing. Sá sem er í fyrsta sæti er því líklegastur til að fara á þing. Sá maður eða kona sem er í fyrsta sæti er kallaður oddviti.

– En hvernig kemst hver á þing?
Það fer eftir þeirri prósentutölu sem hver flokkur fær. T.d. ef að Sjálfstæðisflokkurinn fengi 50% atkvæða í næstu kosningum þá fengju þeir 31 þingmann inn á Alþingi. Það hefur samt aldrei einn flokkur fengið svo háa prósentu vegna þess hversu margir flokkar eru á Íslandi.

– Landið skiptist í 6 kjördæmi; Reykjavíkurkjördæmi suður, Reykjavíkurkjördæmi norður, Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi og Suðvesturkjördæmi.

– Reykjavík suður fær 11 þingmenn inn. Reykjavík norður fær einnig 11 þingmenn inn. Suðurkjördæmi fær 10 þingmenn inn meðan Suðvesturkjördæmi fær 13 inn.
Norðvesturkjördæmi fær 8 þingmenn inn og Norðausturkjördæmi fær 10.

– Ef við myndum þá setja þetta upp í eins einfalt dæmi og við getum:
Samfylkingin fær 50% atkvæða. Þá fara fyrstu 5.sætin þeirra úr Reykjavík suður, fyrstu 5.sætin þeirra úr Reykjavík norður, fyrstu 4.sætin þeirra úr Norðvestur o.s.fv. inn á þing.
Ertu ennþá með mér? Bætum aðeins við.

Vanhæf ríkisstjórn, hæf ríkisstjórn, hvað í andskotanum er ríkisstjórn? Ég viðurkenni að vissi það ekki en vissi það samt. Fólkið sem stýrir landinu… mest?
Ríkisstjórnin fer með framkvæmdarvald landsins. Forsætisráðherra skipar ráðherra úr sitjandi þingmönnum, einn fyrir hvern málaflokk. Forsætisráðherra er svo leiðtogi ráðherranna og stýrir fundum ríkisstjórnarinnar.
Til að mynda ríkisstjórn þurfa flokkar að koma sér saman og mynda meirihluta. T.d. ef að Framsókn fær 23% atkvæða og Sjálfstæðisflokkurinn 28% atkvæða þá mynda þessir tveir flokkar saman 51% eða meirihluta. Þ.a.l. geta þeir komið sér saman og myndað ríkisstjórn.
Flokkar sem mynda saman ríkisstjórn reyna eftir fremsta megni að para sig saman við flokk sem hefur svipaðar stefnur og þeir. Ef að t.d. Samfylkingin vill hækka skatta en Vinstri Grænir vilja lækka skatta þá líklega vilja þeir ekki para sig saman, þó svo að stundum hefur það gerst að andstæðir flokkar þurfa að vinna saman.

Stundum hefur það gerst að svo margir flokkar eru í framboði að atkvæðin greiðast jafnt niður á þá og enginn flokkur er með mjög háa prósentutölu. Þá þurfa e.t.v. margir flokkar að para sig saman til að mynda ríkisstjórn.
Þegar ríkisstjórnin fundar eru það ráðherrarnir sem að kynna þau mál sem þau eru að vinna að hverju sinni og ræða þau sín á milli.
Vonandi var þetta einhverjum hjálplegt og verður til þess að fleiri kynni sér stefnumál hvers flokks og ákveði fyrir sína eigin sannfæringu hvaða flokk þeim líst best á. Hvað vilt þú fyrir landið? Ekki bara kommenta það á DV, Vísi eða jafnvel Kaffið. Kynntu þér þetta og kjóstu!

Sambíó

UMMÆLI