Kontiki býður vetrarferðir frá Zurich til Norðurlands

Kontiki býður vetrarferðir frá Zurich til Norðurlands

Svissneska ferðaskrifstofan Kontiki hefur ákveðið að bjóða upp á vetrarferðir til Norðurlands næsta vetur, í beinu flugi frá Zurich. Þetta er í fyrsta sinn sem ferðaskrifstofan býður ferðir beint til Norðurlands, en hún hefur töluverða reynslu af því að selja ferðir til Íslands allt árið um kring. Boðið verður upp á vikulegar ferðir í febrúar og mars á næsta ári og því ljóst að um töluverða innspýtingu er að ræða fyrir norðlenska vetrarferðaþjónustu yfir vetrartímann, sem er í takti við þær áherslur sem Markaðsstofa Norðurlands hefur unnið að á undanförnum árum.

„Kontiki hefur einsett sér að stuðla að sjálfbærri þróun ferðaþjónustu á Norðurlöndum og hefur tekið virkan þátt í henni. Til að sýna það í verki höfum við ákveðið að hefja þetta verkefni á Norðurlandi með sjálfbærni efst á blaði í samvinnu við Markaðsstofu Norðurlands. Markmiðið er að efla áfangastaðinn Norðurland, lengja dvöl þeirra ferðamanna sem þangað koma og efla heilsársþjónustu, með hag heimamanna og ferðamanna að leiðarljósi,“ segir í tilkynningu frá Kontiki.

Á síðasta ári voru Markaðsstofa Norðurlands og Kontiki í samstarfi í sérstöku verkefni um sjálfbæra þróun áfangastaðarins Norðurlands, og meðal annars var haldin stór vinnustofa í Hofi á Akureyri sem fulltrúar Kontiki stjórnuðu.

„Áherslur Kontiki ríma mjög vel við áherslur norðlenskrar ferðaþjónustu um aukna uppbyggingu yfir vetrartímann, sem stuðlar að fjölgun heilsársstarfa í ferðaþjónustu og minni árstíðasveiflu. Fyrirtæki á Norðurlandi fá þarna tækifæri til að stuðla enn frekar að sjálfbærri ferðaþjónustu, sem mun koma öllu samfélaginu til góða,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó