Kona kaupir sér blómvönd-eða ekki

Ég á elskulegan og góðan eiginmann og okkar samvistir hafa varað í fimm ár. Ég hef skrifað um hann áður, hann er ekkert mjög glaður með það en sambúðin okkar er jú hluti af minni heill og minni hamingju og af henni læri ég sérhvern dag. Því verður hann bara að sætta sig við að vera aðalpersóna í pistlunum mínum, ásamt hundinum. Ég uppgötvaði fljótlega í okkar sambúð að það hentar honum ekkert sérstaklega vel að stunda það sem hann kallar „hjarðhegðun”, þ.e. hegðun sem samfélagið ætlast til af meðlimum sínum, oft án nokkurrar skynsemi eða jafnvel af ástæðum sem löngu eru úreltar. Við erum að sjálfsögðu ekki að tala um það að hlíta lögum og reglum eða að stunda almenna tillitsemi heldur t.d. það að kaupa blóm á konudaginn fremur en aðra daga eða að dagamunur og önnur samskipti fólks eigi almennt að fara eftir einhverjum óskráðum reglum. Hann gerir yfirleitt bara það sem honum finnst þjóna einhverjum skynsamlegum tilgangi.

Ég er hinsvegar lituð af kurteisisbókinni hennar ömmu minnar og hefðir og venjur samfélagsins hafa verið mér mikilvægar. Maður gerir „svona” en maður gerir ekki „svona”. Ég væri fín í Bretlandi þar sem fólk keppist við að biðja afsökunar á því að einhver rekist utan í það og ég hef meira að segja staðið sjálfa mig að því að biðja hundinn afsökunar á því að ég ropaði. Hundinum var að sjálfsögðu slétt sama.

Þannig fannst mér í byrjun svolítið púkalegt að fá ekki þetta hefðbundna konudagsdekur og var svolítið í því að beita tilfinngalegum þrýstingi fyrstu árin okkar saman. Sagði með ofurlítið brostnum rómi að mér væri svo sem alveg sama að ég fengi ekki blóm,- ég gæti svo vel keypt mín eigin blóm. Og maðurinn minn fór í ofboði að tína saman í einhvern fínan morgunmat af því að hann er jú vænn maður og fann að mér mislíkaði. Og mér mislíkaði það enn meira að hann skyldi ekki bara hafa haft vit á því að kaupa beikon og rósir og jarðarber og allt það sem okkur hefur verið talin trú um að sanni ást karlmannsins til konu sinnar,- í tíma!

Samviskusamlega var ég síðan ákaflega pössunarsöm í því að gefa honum skyldublómvöndinn á bóndadaginn og skyldi þar með komið í veg fyrir að einhver jöfnuður væri í málinu,- á hann skyldi hallað ef hann gleymdi þessu áfram.

Minn elskulegi var hinsvegar sjálfum sér samkvæmur og gleymdi kyrfilega frá ári til árs og ég, orðin þó þetta gömul fór að læra af því.

Ég lærði að blóm, eins yndisleg og þau eru, eru ekki mælikvarði á ást milli hjóna. Og það sem meira er að ég get keypt blómin sjálf, ef mér er mikilvægt að fá blóm á þessum degi. Maðurinn minn sýnir mér flesta daga að hann kann að meta mig en kannski er það helst til of sjaldan að ég sýni mér sjálf að ég kunni að meta það sem ég er og hvað það er sem gerir mig elskuverða. Konudagurinn er líklega dagur sem væri passandi að við konur fögnuðum því sjálfar að vera konur á þann hátt sem okkur sjálfum passar best.

Kosturinn við að kaupa sín eigin blóm er að ég get keypt blóm sem mér sjálfri líka. Þau þurfa ekki að vera hluti af „konudagssölu” blómabænda með bleikum borðum og hjörtum heldur bara gullfallegur vöndur að mínu eigin skapi. Og það sem meira er, ég get keypt þau hvenær sem mér hentar,- eða bara alls ekki. Maðurinn minn er laus við þrýstinginn um að gefa mér blóm og morgunverð í rúmið á þessum eina degi og getur gert það þegar honum sýnist,- eða bara alls ekki! Einu sinni var hann lasinn á konudaginn þessi elska og sendi mig eftir blómum handa sjálfri mér….og ég keypti mér lakkrís!

Við getum verið kurteis og elskuleg hvort við annað en við þurfum ekkert að gera það semkvæmt kurteisisbókinni hennar ömmu. Mér sýnist að það að taka ábyrgð á sjálfum sér geti einmitt verið að dekra við sjálfan sig á eigin forsendum og af sannri væntumþykju en ekki að bíða eftir að aðrir geri það á þeirra forsendum. Í þeirri vitneskju felst heilmikið frelsi. Ég er alltaf að læra en enn er mikið eftir ólært samt.

Eina leiðin til að vera besta útgáfan af sjálfum sér er að gangast við sjálfum sér.

Pistillinn birtist upphaflega á  raedaogrit.wordpress.com

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó