Sópransöngkonan Álfheiður Erla Guðmundsdóttir og píanóleikarinn Eva Þyri Hilmarsdóttir fagna vorkomunni með norrænum sönglögum í kvöld klukkan 20:00 í Hofi. Á tónleikunum munu meðal annars hljóma lög eftir E. Grieg, J. Sibelius, Jórunni Viðar og frumflutningur laga eftir Guðmund Emilsson.
Sópransöngkonan Álfheiður Erla Guðmundsdóttir lauk framhaldsprófi frá Söngskóla Sigurðar Demetz vorið 2013 þar sem hennar helstu kennarar voru Hallveig Rúnarsdóttir, Sigrún Hjálmtýsdóttir og Gerrit Schuil. Álfheiður hóf bakkalárnám við „Hanns Eisler“ tónlistarháskólann í Berlín vorið 2014. Í námi sínu við skólann hefur Álfheiður meðal annars farið með hlutverk Susönnu úr Brúkaupi Fígarós sem og sungið á tónleikum á vegum skólans sem bera titilinn „Exzellenz-Konzert“ sem er fyrir framúrskarandi nemendur en verndari tónleikanna er Daniel Barenboim.
Eva Þyri Hilmarsdóttir lauk prófum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum, Danmörku, og The Royal Academy of Music í London, en þaðan útskrifaðist hún með hæstu einkunn, hlaut heiðursnafnbótina DipRAM og The Christian Carpender Piano Prize fyrir framúrskarandi lokatónleika.
Álfheiður Erla segist í samtali við Kaffið.is spennt fyrir því að koma til Akureyrar og þær séu þakklátar að fá að koma fram í Hofi þar sem þær hafi ekki komið fram áður.
„Okkur Evu Þyri hefur dreymt um að setja saman efnisskrá með norrænum vortónum í talsverðan tíma. Nú loksins verða tónleikarnir að veruleika þökk sé Menningarfélagi Akureyrar, Tónlistarsjóði Rannís og Tíbrá tónleikaröðinni.“
„Veðrið í Reykjavík hefur verið skrautlegt síðustu vikurnar en sönglög um vorið eftir norrænu tónskáldin Grieg, Heise, Sibelius, Stenhammar og fleiri hafa yljað okkur í lægðunum og snjókomunni. Við flytjum einnig þrjú lög eftir Jórunni Viðar og frumflytjum tvö sönglög eftir föður minn, Guðmund Emilsson hljómsveitarstjóra.“
„Við erum afar þakklátar fyrir að fá að koma fram í Hofi en þar höfum við ekki komið fram áður. Því hlökkum við mikið til tónleikanna sem við vonum að komi með vorið norður.“
Miðasala fer fram á www.mak.is
UMMÆLI