,,Ég er stundum spurður að því hvort ég sé nokkuð ofvirkur og svarið er alltaf að ég hafi allavega ekki verið greindur,” segir Birkir Örn Jónsson 21 árs Akureyringur sem byrjaði í crossfit fyrir þremur árum, þá í engu formi. Tveimur árum síðar hafnaði hann í 17 sæti á Íslandsmeistaramótinu í crossfit og stefnir nú alla leið á heimsleikana.
Pabba að þakka
Birkir hefur í nógu að snúast þessa dagana en fyrir utan að vera á fullu í crossfit þá vinnur hann sem smiður, kokkur og dyravörður um helgar. Það var fyrir tilstuðlan föður Birkis sem hann ákvað að skrá sig á grunnámskeið hjá Crossfit Hamri. “Vinnufélagi pabba var þá búinn að vera í crossfit í einhvern tíma og hafði tekið flottum framförum. Pabbi sýndi mér árangursmyndir af þessum strák og skoraði á mig að skrá mig.”
Birkir á ekki bara pabba sínum að þakka þann mikla árangur sem hann hefur náð í sportinu heldur segist hann hafa fengið topp þjálfun. “Ég er óendanlega þakklátur Sigurði Þrastarsyni þjálfaranum mínum og æfingafélaga. Hann hefur kennt mér gríðarlega margt. Svo eru menn eins og Arnar Elíasson og Ingi Torfi Sverrisson sem hafa hjálpað mér gríðarlega.”
Fór í ræktina til að fara í pottinn
Birkir hafði stundað líkamsrækt áður en hann byrjaði í crossfit en án þess að ná árangi. Hann gerði eins og margir, fór í ræktina og labbaði á milli tækja og vissi lítið hvað hann var að gera. ,,Ég mætti svona misvel og var ekki að fylgja neinu plani. Ég held að aðal ástæðan fyrir því að ég hafi verið að æfa þarna hafi verið til að komast í pottinn eftir æfingu,” segir Birkir.
,,Sky is the limit”
Birkir segir að þrátt fyrir góðan árangur sé hann alls ekki hættur, hann sé með mikið keppnisskap og ætli sér alla leið. ,,Ég stefni eins langt og skrokkurinn kemst. Það væri algjör snilld að komast á heimsleikana, ætli það sé ekki markmið allra keppnis-crossfitara. ,,Sky is the limit“ eins og maðurinn sagði einhvertímann.”
Crossfit er fyrir alla
Crossfit hefur notið gríðarlegra vinsælda um heim allan og ekki síst á Íslandi. Á Akureyri eru tvær stöðvar starfandi og segir Birkir að Crossfit sé fyrir alla. ,,Crossfit er mjög gott og sniðugt æfingakerfi en ekki bara keppnissport eins og sést á samfélagsmiðlunum þar sem allir eru með útstæðan sixpack og í sturluðu formi. Til þess að ná árangri þarf þó fyrst og fremst brennandi áhuga og aga.“
UMMÆLI