Göngugatan á Akureyri verður lokuð fyrir umferð vélknúinna ökutækja frá 1. maí til 30. september 2025. Málið var samþykkt samhljóða með 11 atkvæðum á fundi bæjarstjórnar þann 18. mars síðastliðinn. Ákvörðunin var tekin meðal annars vegna mikilla skemmda í götunni sem þarf að laga.
Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, segir að það hafi komið á óvart hversu miklar skemmdir voru í götunni í samtali við fréttastofu RÚV sem fjallar um málið.
„Ég held að það hafi komið okkur öllum aðeins á óvart hversu slæmt ástandið var á götunni,“ segir Halla Björk í fréttum RÚV.
„Ég held að núna sé einmitt tækifærið til þess að taka þetta mál upp og ræða til hlítar og ákveða kannski í eitt skipti fyrir öll hvað verður gert,“ segir hún en ítarlegri umfjöllun má finna á vef RÚV með því að smella hér.