Kolbrún María Garðarsdóttir úr Skautafélagi Akureyrar var á dögunum valin íshokkíkona ársins 2019 af stjórn Íshokkísambands Íslands.
Kolbrún María hefur frá unga aldri leikið með Skautafélagi Akureyrar og varð Íslandsmeistari með liðinu 2019 þar sem hún var næst stigahæsti leikmaður deildarinnar með 27 stig í 10 leikjum. Kolbrún vann bronsverðlaun með íslenska kvennalandsliðinu á heimsmeistaramóti Alþjóða Íshokkísambandsins í apríl síðastliðnum þar sem hún skoraði þrjú mörk og átti þrjár stoðsendingar. Kolbrún María var valin besti leikmaður íslenska landsliðsins á mótinu.
Á vef Íshokkísambands Íslands segir: „Kolbrún María Garðarsdóttir er vel að þessu komin enda frábær leikmaður í alla staði, öflugur liðsfélagi, frábær fyrirmynd og er íshokkíhreyfingunni á Íslandi til mikils sóma. Íshokkísamband Íslands óskar Kolbrúnu Maríu innilega til hamingju með árangurinn.“
Mynd: Íshokkísamband Íslands
UMMÆLI