Sveitarstjórnarkosningar fóru fram í landinu síðastliðinn laugardag. Á Akureyri voru sjö flokkar í framboði sem allir nema einn fengu a.m.k. einn fulltrúa inn í bæjarstjórn. D-listi Sjálfstæðisflokksins fékk flest atkvæði, eða 1.998 og þrjá bæjarfulltrúa. L-listinn, sem er bæjarlisti Akureyrar fékk næstflest atkvæði, 1.828 og tvo fulltrúa. Framsóknarflokkurinn er þriðji stærsti flokkurinn á Akureyri og fékk 1.530 atkvæði og tvo bæjarfulltrúa kjörna. Samfylkingin fékk einnig tvo fulltrúa og 1.467 atkvæði. Vinstrihreyfingin grænt framboð fékk 820 atkvæði og einn fulltrúa. Miðflokkurinn fékk einnig einn fulltrúa og 707 atkvæði en Píratar fengu 377 atkvæði og engan fulltrúa kjörinn.
Á Akureyri var kjörsókn ekki nema 66,3% en það er lítilsverð hækkun frá því í síðustu sveitarstjórnarkosningum þegar kjörsókn var 66,5%. Í samanburði við önnur sveitarfélög á Norðurlandi er Akureyri með langminnstu kjörsóknina en það munar í kringum 12 prósentustigum milli sveitarfélaganna.
Kjörsókn:
Akureyri: 66,3%
Á kjörskrá: 13.708
Talin atkvæði: 9.083
Auð: 319 Ógild: 37
Fjallabyggð: 79,5%
Á kjörskrá: 1.578
Talin atkvæði:1.254
Auð: 41 Ógild: 6
Skagafjörður: 79,2%
Á kjörskrá: 2.929
Talin atkvæði: 2.320
Auð: 68 Ógild: 7
Norðurþing: 78%
Á kjörskrá: 2.116
Talin atkvæði:1.651
Auð: 52 Ógild: 15
Konur aftur í meirihluta í bæjarstjórn
Af ellefu kjörnum bæjarfulltrúum eru sex þeirra konur á móti fimm karlmönnum. Þetta var einnig raunin í síðustu sveitarstjórnarkosningum á Akureyri 2014. Við bæjarstjórnarkosningarnar 2002 gerðist það í fyrsta skipti að konur voru í meirihluta í bæjarstjórn. Konur höfðu þó verið í meirihluta áður á einstökum bæjarstjórnarfundum. Þetta gerðist ekki aftur fyrr en í sveitarstjórnarkosningunum á Akureyri 2014 þegar sex konur á móti fimm karlmönnum fengu kjör í bæjarstjórn. Í nýliðnum kosningum endurtekur þetta sig en aftur eru sex konur á móti fimm karlmönnum. Bæjarfulltrúar eru sem hér segir:
Guðmundur Baldvin Guðmundsson – Framsókn
Ingibjörg Isaksen – Framsókn
Gunnar Gíslason – Sjálfstæðisflokkurinn
Eva Hrund Einarsdóttir -Sjálfstæðisflokkurinn
Þórhallur Jónsson – Sjálfstæðisflokkurinn
Halla Björk Reynisdóttir – L-listinn
Andri Teitsson – L-listinn
Hlynur Jóhannsson – Miðflokkurinn
Hilda Jana Gísladóttir – Samfylkingin
Dagbjört Elín Pálsdóttir – Samfylkingin
Sóley Björk Stefánsdóttir – Vinstri græn
Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn í forystu á Norðurlandi
Í Fjallabyggð voru aðeins þrír flokkar í framboði og þar fékk Sjálfstæðisflokkurinn flest atkvæði, 539 eða 44,8%. H – Fyrir heildina hlaut 30,8% atkvæða og Betri Fjallabyggð fékk 24,4% atkvæða.
Í Skagafirði voru fjórir flokkar í framboði og þar vann Framsóknarflokkurinn með 34% atkvæða. Vinstri græn fylgdu á eftir með 24,4% atkvæða, Sjálfstæðisflokkurinn með 21% atkvæða og Byggðalistinn með 20,6% atkvæða.
Í Norðurþingi voru fimm flokkar í framboði þar fengu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn flest atkvæða. Sjálfstæðisflokkurinn var með 30,1% atkvæða og Framsókn með 26,4%. Atkvæðin skiptust svo nokkuð jafnt milli hinna þriggja flokkanna; Vinstri græn með 15% atkvæða, Samfylkingin með 14,4% atkvæða og Listi Samfélagsins með 14,1% atkvæða.
UMMÆLI