Jan Eric Jessen skrifar:
Fyrsta umferð Kjarnafæðideildarinnar 2017 fór fram í Boganum í kvöld. Ekki er hægt að segja að neinn vorbragur hafi verið á liðunum enda heil 32 mörk skoruð í þessum 5 leikjum.
Titilvörn meistaranna í UMF Sölva hófst gegn liði Æskunnar, sem hefur teflt fram mjög sterku liði í Kjarnafæðideildinni undanfarin ár. UMF Sölvi byrjaði betur og stjórnuðu leiknum framan af. Þeir leiddu í hálfleik, 1-0. UMF Sölvi komst svo í 3-0 en Æskan kom sterkari inn eftir það og tókst að jafna leikinn. Leiknum lyktaði með 3-3 jafntefli.
Tvö af nýju liðunum í deildinni á þessu ári, Babúska og 603, mættust í kvöld. Babúskumenn voru talsvert sterkari aðilinn og brutu ísinn eftir um 8 mínútna leik. Ungu liði 603 tókst engu að síður að skapa sér nokkur góð færi en markvörður Babúsku kom í veg fyrir að þeim tækist að skora í fyrri hálfleik. Leikmenn Babúsku gengu á lagið og bættu við 4 mörkum fyrir hálfleik. Síðari hálfleikurinn var jafnari og vann Babúska að lokum sannfærandi sigur, 7-1.
Besta frammistaða kvöldsins kom frá liðinu FC Böggur, sem sigraði lið Hata með 11 mörkum gegn engu. Leikurinn var afar ójafn og skilaði sigurinn FC Böggur 1. sætinu að lokinni fyrstu umferð. Ljóst er að FC Böggur ætlar að stimpla sig rækilega inn í toppbaráttuna í ár.
Mývetningar mættu öðru nýju liði, sem ber nafnið FC Jattebrä. Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn, þótt Mývetningar hefðu yfirhöndina og leiddu þeir appelsínugulu í hálfleik, 1-0. Í síðari hálfleik tryggðu Mývetningar sér öruggan sigur með því að bæta við þremur mörkum, lokatölur 4-0.
Síðasti leikur kvöldsins var viðureign FC Úlfanna 010 og KS frá Siglufirði. Þetta var mikill baráttuleikur tveggja sterkra liða, þar sem Úlfarnir byrjuðu betur og leiddu í hálfleik, 1-0. Í síðari hálfleik tókst KS að snúa við taflinu og tryggja sér 2-1 sigur með tveimur glæsilegum mörkum.
Næsta umferð verður leikin fimmtudaginn 8. júní.
Frétt af kdn.is
UMMÆLI