Í síðustu viku flaug hópur 12 götuhjólreiðakeppenda til borgarinnar Trento á norður Ítalíu til að taka þátt í Evrópumóti í götuhjólreiðum. Hafdís Sigurðardóttir og Silja Jóhannesdóttir, frá hjólreiðafélagi Akureyrar, voru hluti af landsliðshópnum og kepptu með góðum árangri á þessu stóra móti.
Alls voru 102 sem hófu keppni á þessu krefjandi móti en keppnisbrautin var 13,2 km hringur með 250m hækkun sem þurfti að fara alls átta sinnum. Aðeins 32 keppendur kláruðu en um leið og keppendur eru fimm mínútur á eftir fremsta fólki eru þeir flaggaðir út og detta úr keppni.
,,Allar helstu hjólastjörnur álfunnar voru mættar til leiks og af þeim 102 sem hófu keppni voru ekki nema 32 sem kláruðu. Þetta var hörð keppni og um leið og keppendur voru um 5 mínútur á eftir fremsta fólki voru þeir flaggaðir út. Silja var flögguð út í öðrum hring en Hafdís náði að klára þrjá og var flögguð út í byrjun á þeim fjórða. Það er rosalega stórt tækifæri að fá að taka þátt í svona stórri keppni og koma stelpurnar heim reynslunni ríkari,“ segir í tilkynningu frá Hjólreiðafélagi Akureyrar.
UMMÆLI