Keppt í Arctic Chef, Arctic Butcher og Arctic Mixologist á Arctic Challenge 2024

Keppt í Arctic Chef, Arctic Butcher og Arctic Mixologist á Arctic Challenge 2024

Arctic Challenge keppnin 2024 fór fram 2. mars síðastliðinn og gekk keppnin eins og í sögu samkvæmt tilkynningu frá aðstandendum keppninnar á Facebook. Keppt var í Arctic Chef, Arctic Butcher og Arctic Mixologist.

Í ár var keppt í kjötiðn í fyrsta skipti og hlaut sigurvegarinn titilinn Arctic Butcher. Keppendur stilltu svo borðunum sínum upp í salnum og bauðst gestum og gangandi að kaupa kjötið sem var í boði. Allt kjöt var fengið frá Norðlenska – Kjarnafæði.

Davíð Clausen Pétursson stóð uppi sem sigurvegari og Ágúst Sigvaldason lenti í öðru sæti. Dómarar Arctic Butcher voru Rúnar Ingi Guðjónsson, Jón Gísli Jónsson og Jónas Þórólfsson.

Arctic Chef keppnin byrjaði í raun á fimmtudeginum, en þá fengu keppendur að vita hvaða hráefni þeir þyrftu að vinna með. Kokkarnir þurftu að panta sér tvær tegundir af próteini og fengu síðan gjafakörfu sem innihélt hráefni sem þurfti að nota.

Keppendur héldu síðan í Krónuna þar sem þeir fengu að velja sér ávexti, grænmeti, hnetur o.fl. en þar þurfti að vanda valið þar sem eru gefin mínusstig fyrir matarsóun. Verkefni sem var styrkt af Krónunni.

Fyrsta sætið hreppti Sindri Freyr Ingvarsson og var Matthías Pétur Davíðsson lengi í öðru sæti. Dómarar Arctic Chef voru Kolbrún Hólm Þórleifsdóttir, Ari Þór Gunnarsson og Aron Gísli Helgason.

Arctic Mixologist kokteilakeppnin var með aðeins öðruvísi sniði en þar komu keppendur undirbúnir með sín hráefni.Markmið keppninnar var „zero waist“ eða sjálfbærni og lítil sem engin matarsóun. Keppendur gerðu til að mynda síróp frá grunni, ávextir voru notaðir til fulls og sumir keppendur þurrkuðu restina af ávöxtunum sem þeir notuðu til að útbúa skraut á kokteilana.

Keppendur fengu síðan 15 mínútur til að framreiða 4 glös af kokteilum fyrir dómara en undirstaðan í kokteilunum var Koskenkorva frá Globus. Í ár bættu aðstandendur keppninar við svo smá skriflegu skriflegu prófi sem innihélt nokkrar spurningar um Koskenkorva og laufléttar spurningar sem flestir barþjónar ættu að kunna. Keppendur kepptu einnig í blindsmakki á 5 tegundum af sterku víni frá Globus.

Sigurvegari Arctic Mixologist var Thelma María Heiðarsdóttir, annað sætið hreppti Elmar Freyr Arnaldsson og í því þriðja var Andri Þór Guðmundsson. Dómarar Arctic Mixologist voru Andrzej Baard, Heiða Margrét Fjölnisdóttir og Atli Baldur Wei

„Óskum við öllum sigurvegurum innilega til hamingju sem og öðrum þátttakendum. Síðustu tvö árin höfum við haldið keppnina, fundi og fyrirlestra í matvæladeild Verkmenntaskólans á Akureyri og þökkum við þeim gríðarlega fyrir stuðninginn og má þar helst nefna hann Ara Hallgrímsson sem er brautarstjóri matvæladeildar. Hann hlaut heiðursviðurkenningu fyrir stuðning og störf sín í þágu Arctic Challenge og fagsins í heild sinni og erum við innilega þakklát fyrir hans stuðning,“ segir í tilkynningu Arctic Challenge á Facebook.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó