Gæludýr.is

„Keppnismaður, vinur vina sinna, kærleiksríkur“

„Keppnismaður, vinur vina sinna, kærleiksríkur“

Líkt og lesendum er kunnugt var Helgi Rúnar Bragason valinn manneskja ársins árið 2023 af lesendum Kaffisins. Helgi féll frá í ágúst eftir hetjulega baráttu við krabbameins svo kona hans og dóttir tóku við viðurkenningunni fyrir hans hönd. Þegar afhendingin fór fram gerðu þær okkur þann greiða að setjast niður með okkur og ræða aðeins um Helga.

Þegar fréttaritara Kaffisins bar að garði tók Hildur Ýr Kristinsdóttir, kona Helga, á móti þeim með mikilli gestrisni, tók í hendurnar á okkur og bauð okkur strax eitthvað að drekka. Glatt var yfir heimilinu, en Karen Lind Helgadóttir, dóttir Helga, var á leið á tónleika með vinkonum sínum og undirbúningur í fullum gangi. Hildur og Karen gáfu sér þó báðar tíma fyrir viðtal og settust niður með okkur í stofunni, sem okkur hjá Kaffinu þótti alveg sérstaklega fallega skreytt.

Keppnismaður

„Keppnismaður,“ segir Karen hiklaust þegar mæðgurnar eru spurðar um þrjú orð til að lýsa manni ársins. Hildur tekur undir það, enda voru íþróttir stór miðpunktur í lífi Helga. Hann spilaði körfubolta í heimabænum sínum Grindavík og varð meðal annars bikarmeistari með liðinu. Keppnisskapið hvarf þó ekki þegar hann hætti sjálfur að spila, en hann þjálfaði yngri flokka Þórs í körfubolta árum saman og þjálfaði einnig meistaraflokk kvenna hjá félaginu í tvö frábær tímabil. Hildur segir einmitt að hann væri afskaplega stoltur ef hann gæti séð þann frábæra árangur sem Þórskonur eru að ná í körfunni þetta tímabil.

Það ber hins vegar að nefna að þetta kepnnisskap Helga snerist aldrei upp í fjandskap gagnvart mótherjanum. Karen segir létt í lund frá því að þó svo að pabbi hennar hafi verið mikill Þórsari hafi hann ávallt stoppað hana af ef hún fór að tala illa eða ókurteisislega um KA. Helgi var auðvitað ekki einungis Þórsari, heldur vann hann fyrir hag alls íþróttafólks á Akureyri sem framkvæmdastjóri ÍBA. Þar að auki hætti hann aldrei að styðja liðið sem hann spilaði fyrir sem ungur maður, Grindavík. Þær mæðgur voru sammála um að hann hafi verið orðinn meiri Þórsari en Grindvíkingur þegar á leið. „En grindvíkingahjartað skein samt alltaf,“ segir Karen og segir frá því að móðir hennar hafi eitt árið gefið þeim tvískipta boli, sem voru hálfir merktir Grindavík og hálfir merktir Þór.

En keppnisskap Helga kom þó ekki bara fram á sviðum íþrótta, heldur í nær öllu sem hann gerði. Samfélagið naut sérstaklega góðs af þessu keppnisskapi hans undanfarin ár þegar hann tók þátt í Mottumars, en bara í ár safnaði hann rúmlega 2,2 miljónum til styrktar baráttunni gegn krabbameini. Að sjálfsögðu var þar helsta hvötin að styðja við aðra sem ganga þurfa í gegnum krabbamein, en segja Karen og Hildur að keppnisskap Helga hafi heldur betur farið í gang og þótti honum mikið sport að reyna að safna eins miklu og hann gat: „Hann ætlaði ekkert að vera með [í Mottumars] nema bara gera þetta almennilega eða sleppa því … Hann var ‚all in‘ í öllu sem hann tók sér fyrir hendur.“

Félagsvera

Helgi var þó ekki bara keppnismaður, Helgi var að sögn Karenar og Hildar kærleiksríkur maður sem hafði ríkan áhuga á öðru fólki og var vinur vina sinna.

Karen og Hildur leggja báðar áherslu á það að Helgi hafi verið með gríðarlega stórt tengslanet. Karen segir frá því að eftir tveggja ára búsetu á Akureyri hafi pabbi hennar átt hér fleiri vini en Hildur, sem er uppalin á Akureyri. Hildur játar því fúslega og útskýrir: „Hann snerti við bara svo mörgum. Hann var svo mannglöggur, ef hann hefði hitt ykkur einu sinni og síðan hitt ykkur aftur var það bara komið. Hann gat spjallað við alla um allt.“ Karen bætir við: „Hann sýndi alltaf öllum áhuga og virkilega hlustaði á það sem fólk hafði að segja.“

Þannig var Helgi ekki bara traustur og tryggur þeim sem stóðu honum næst, heldur var hann líka viðkunnalegur maður sem virkilega margir Akureyringar hafa haft þann heiður að kalla kunningja. Þetta hafa bæjarbúar sýnt í verki með því að kjósa Helga mann ársins hjá Kaffinu, sem Hildur og Karen segja að hefði þýtt mikið fyrir honum, að fá slíka viðurkenningu og þakklæti fyri sín vel unnin störf í þágu bæjarbúa.

Hildur og Karen taka við viðurkenningu Kaffisins fyrir hönd Helga
Sambíó

UMMÆLI

Sambíó