Keppendur UFA hlutu 11 verðlaun á Íslandsmeistarmótinu

Fyrir miðju er Jón Þorri nýkrýndur Íslandsmeistari í 110m grindarhlaupi 15 ára pilta.

Meistaramót Íslands 15-22 ára fór fram á Laugardalsvelli um helgina. Átta keppendur frá UFA stóðu sig með stakri prýði og létu mótvind og slagveður ekki mikið á sig fá.

Keppendur UFA hlutu samtals 11 verðlaun sem skiptust niður á tvö gull, fimm silfur og fjögur brons. Aðstæður voru mjög erfiðar í Laugardalnum og því lítið um persónulegar bætingar.

Sunna Þórhallsdóttir varð Íslandsmeistari í hástökki 15 ára stúlkna þegar hún stökk 1,57 metra. Gunnar Eyjólfsson fékk silfur í 100 metra hlaupi pilta 18-19 ára á tímanum 11,58 sek en einungis einum hundraðasta úr sekúndu munaði á tíma hans og Íslandsmeistarans sem kom úr FH. Jón Þorri Hermannsson varð Íslandsmeistari í 100 metra grindarhlaupi þar sem hann hljóp á tímanum 15,23 sek. Jón Þorri hlaut einnig þrenn silfurverðlaun í flokki 15 ára pilta; í 200 metra hlaupi á tímanum 25,56 sek, í langstökki þegar hann stökk 5,77 metra og í þrístökki þegar hann stökk 11,98 metra. Jafnframt hlaut hann tvenn bronsverðlaun; í kringlukasti með kasti uppá 32,21 metra og í kúluvarpi þegar hann varpaði kúlunni 12,45 metra sem jafnframt er hans besti árangur. Ragúel Pino Alexandersson fékk silfur í 110 metra grindahlaupi pilta 16-17 ára þegar hann hljóp á tímanum 17,07 sekúndum og bætti þar með sinn persónulega árangur. Hann hlaut einnig tvenn bronsverðlaun; í 400 metra hlaupi þegar hann hljóp á tímanum 54,62 sek og í kringlukasti þegar hann kastaði kringlunni 32,43 metra.

Nú taka keppendur sér stutt hlé en síðan hefst undirbúningstímabil fyrir innanhúsmótin sem hefjast í október.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó