Kennaradeild Háskólans á Akureyri fagnaði 30 ára afmæli

Kennaradeild Háskólans á Akureyri fagnaði 30 ára afmæli

Kennaradeild Háskólans á Akureyri fagnaði 30 ára afmæli sínu 18. október síðastliðinn með málþinginu „Þar ríkir mikill metnaður“. Deildin skipaði sérstaka afmælisnefnd til að skipuleggja afmælisfögnuðinn. Nefndin tók þá ákvörðun að halda málþing sem væri bæði fróðlegt og skemmtilegt en umfram allt myndi fanga þá stemmingu sem ríkt hefur í deildinni. Því voru útskrifaðir stúdentar frá mismunandi tímum fengnir til að rifja upp námsárin og hugleiða hvernig menntunin hefði nýst þeim á vettvangi. Auk þess leitaði deildin til núverandi stúdenta og reynslubolta úr starfinu, auk kennara við deildina. Þannig samanstóð málþingið af áhugaverðum og áhugasömum hópi þátttakenda með reynslu af öllum skólastigum. Þetta kemur fram á vef Háskólans á Akureyri.

„Mér fannst standa upp úr hvað þátttakendur minntust námsáranna með mikilli hlýju og að öll skyldu þau nefna samheldni nemendahópsins. Eins var ánægjulegt að heyra hversu oft var minnst á metnaðarfull starf, samkennd og góð samskipti milli kennara og nemenda. Svo verður að nefna það að erindin voru öll bráðskemmtileg, þau báru með sér að það er gaman að tilheyra Kennaradeild, hvort sem það er sem nemandi eða kennari. Sagan af geitungunum sem skipti sér af stofnun deildarinnar batt síðan eftirminnilegan endahnút á málþingið. Hún mun án efa rata í sögu deildarinnar sem Bragi Guðmundsson er að taka saman og mun gefa rafrænt út,“ segir Brynhildur Þórarinsdóttir, dósent og ein skipuleggjenda.

Birna María Brattberg Svanbjörnsdóttir, deildarforseti Kennaradeildar var ánægð með hvernig til tókst og hve mörg tóku þátt. „Það sem mér fannst standa upp úr og koma fram í öllum erindunum með einhverjum hætti, er samstaðan í deildinni frá upphafi og í gegnum tíðina. Ásamt viðleitnin til að þróa og finna leiðir til að mæta þörfum stúdenta, kennara og samfélagsins. Þá fannst mér velvild, stolt og hlýja einkenna málþingið. Kennaradeild hefur rutt nýjar brautir í þróun kennaranáms og er mikilvægur hlekkur í kennaramenntun á Íslandi,“ segir Birna.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó