Kenna börnum niður í tveggja ára stærðfræði – Skimunartækið MÍÓ hjálpar börnum að ná tökum á stærðfræði mun fyrr

Leikskólinn Pálmholt fagnaði degi stærðfræðinnar föstudaginn 2. febrúar sl. með kynningarfundi í skólanum en undanfarið hefur skólinn tekið þátt í þróunarverkefni sem gengur út á stærðfræðiskimun barna í leikskóla. Leikskólinn Pálmholt og Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri standa að verkefninu en þau fengu viðurkenningu fræðsluráðs fyrir verkefnið í ágúst sl.
Mikið fjör var á kynningardeginum og ljóst að verkefnið hefur mikla þýðingu hvað varðar áframhaldandi menntun barnanna.

Yngstu börnin nota líka stærðfræði þegar þau leita lausna við þeim verkefnum sem standa frammi fyrir þeim.

Börnin standa sig betur í stærðfræði þegar lengra er haldið
Skimunartækið MÍÓ er ætlað fyrir leikskóla til að finna sem allra fyrst þau börn sem þarf að hlúa sérstaklega að varðandi rökhugsun og talnaskilning. MÍÓ var fundið upp í Noregi árið 2008 og var þýtt og staðfært yfir á íslensku af þeim Dóróþeu Reimarsdóttur, Jóhönnu Skaftadóttur og Þóru Rósu Geirsdóttur. Samkvæmt norskum rannsóknum sést greinilegur munur á þeim börnum sem hafa verið hluti af MÍÓ-verkefninu og þeim sem ekki voru hluti af því. Börnin hafa þá almennt staðið sig betur í stærðfræði í grunnskóla eftir að hafa verið hluti af MÍÓ-verkefninu í leikskóla.
„Allt sem þú veitir athygli það vex. Þá fórum við að hugsa meira um hvað við erum að gera mikið í stærðfræði,“ segir Erna Rós Ingvarsdóttir, skólastjóri Pálmholts, um ávöxt verkefnisins.

Börnin fá meiri þjálfun í lakari þáttum
Leikskólinn Pálmholt var fyrsti skólinn til þess að prófa þetta verkefni og gekk vonum framar. MÍÓ er matslisti, eða skimun, þar sem lagðar eru fyrir börnin allskonar þrautalausnir, rúmfræði, tölur o.fl. Niðurstöður hjá hverju barni fyrir sig eru settar í skífu og hæfni barnanna í þessum þáttum flokkuð eftir því. Erna Rós segir verkefnið gríðarlega mikilvæga viðbót við leikskólakennslu. Þessi matslisti fylgir svo barninu í áframhaldandi nám.

„Við metum þau þrisvar sinnum á eins árs fresti og getum þá strax fundið ef börn eru kannski ekki komin eins langt og viðmiðin eru fyrir þeirra aldur. Þá getum við sett þau meira inn í leikina og þá vinnu sem þjálfar þau í þeim atriðum sem þau eru ekki búin að ná nógu vel,“ segir Erna Rós.

Krakkarnir hafa gaman að verkefnunum og átta sig ekki endilega á því að um stærðfræði sé að ræða.

„Stærðfræði er svo miklu meira en bara plús og mínus“
Börnin eru fengin í allskonar leiki og verkefni, líkt því sem þau eru vön, og efniviðurinn sem þau notast við er eitthvað sem við tengjum kannski ekki rakleiðis við stærðfræði, t.d. perlur, eggjabikarar, kubbar, púsl og fleira. Alveg niður í tveggja ára gömul börn eru að búa til kubba út frá formi og litum sem þau sjá á blaði. Munurinn er sá að fylgst er með árangrinum og hvernig þeim gengur að leysa verkefnin og það skráð niður.
„Við erum í stærðfræði allan daginn en áttuðum okkur kannski ekki á því endilega að þetta væri stærðfræði. Stærðfræði er svo miklu meira en bara plús, mínus og deiling. Rúmfræði og rökhugsun er eitthvað sem við erum alltaf að nota. Rúmfræði er t.d. bara að púsla eða setja saman 1 og 2. Svo þarf rökhugsun t.d. til að ákveða hvernig fötum á að fara í eftir því hvernig veðrið er, hvaða flík við förum fyrst í o.s.frv. Þetta er allt stærðfræði,“ segir Erna Rós.

Leikskólabörn eru klókari en margir halda
Erna Rós var full af stolti á þessum kynningarfundi verkefnisins á föstudaginn. Börnin stóðu sig frábærlega í þeim þrautum sem lagðar voru fyrir þau og allir starfsmenn og þeir sem að verkefninu koma unnu sem ein heild og stóðu sig með stakri prýði.
„Hjarta mitt er bara svo stútfullt af stolti af þessu flotta fólki sem vinnur við þetta og svo börnunum. Þau eru svo miklu snjallari heldur en við kannski erum að velta okkur upp úr. Það er svo mikill ávinningur fyrir okkur kennarana að sjá hvernig þau eru með stærðfræðina og hvað hún liggur víða. Hún er í öllum athöfnum okkar daglega lífs,“ segir Erna Rós.

Greinin birtist upphaflega í Norðurlandi, fréttablaði 8. febrúar. 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó